Framúrskarandi fólk með persónuleikaraskanir

Fiann Paul segir góðan árangur í ofurþolíþróttum oft tengjast persónuleikaröskunum, …
Fiann Paul segir góðan árangur í ofurþolíþróttum oft tengjast persónuleikaröskunum, en hann hefur sjálfur tekist á við nokkur slík verkefni á sviði úthafsróðurs sem margir myndu jafnvel segja ómennsk. mbl.is/​Hari

Fiann Paul hefur í meira en áratug verið búsettur á Íslandi og á þeim tíma sankað að sér gífurlegum fjölda íþróttatengdra heimsmeta fyrir róður á úthöfum. Þessa reynslu hefur hann meðal annars nýtt sér undanfarin ár í sálfræðinámi sínu við Carl Jung Institute í Sviss þar sem hann fékk áhuga á að greina hvað fái ákveðna einstaklinga til að fara að mörkum hins ómögulega líkamlega í ofurþolraunum. Telur hann að ákveðnar persónuleikaraskanir séu drifkraftur fyrir þessi afrek og hafi stuðlað að stórtækum framförum mannkyns. Þótt þessar raskanir séu alla jafna settar í neikvætt samhengi sé raunin sú að þær séu náttúruleg aðferð til að takast á við áföll og í einhverjum tilfellum þannig að viðkomandi skari fram úr á vissu sviði. Fiann settist niður með blaðamanni mbl.is og fór yfir þessar hugmyndir og tenginguna við reynslu sína af úthafsróðri.

Fiann er fæddur í Póllandi þar sem hann hóf að stunda kappróður á menntaskólaárunum. Hann færði sig svo síðar yfir í þolróður og tók þátt í nokkrum slíkum verkefnum áður en hann fór sjálfur að skipuleggja slíkar ofurþolraunir. Hefur hann nú meðal annars verið hluti af teymum sem hafa róið yfir Atlantshaf, Indlandshaf, Kyrrahaf auk þess að hafa róið langa leið um Norðuríshaf.

Á 30 skráð heimsmet

Með þessum róðrarleiðöngrum hefur Fiann nælt sér í 30 heimsmet sem staðfest eru af Heimsmetabók Guinness, þar af 23 sem eru vegna beins árangurs, en ekki í tengslum við aldur eða slíkt. Er hann þar með í fámennum hópi einstaklinga sem eiga um eða yfir 20 slík heimsmet sem tengjast íþróttum eða líkamlegum árangri.

Staðfestingar Heimsmetabókar Guinness á hluta meta Fiann.
Staðfestingar Heimsmetabókar Guinness á hluta meta Fiann. Ljósmynd/Fiann Paul

Framúrskarandi þolíþróttafólk og persónuleikaraskanir

Fyrir nokkrum árum hóf Fiann nám í djúpsálfræði og tók hann fljótlega eftir því að margir þeir eiginleikar sem hann leitaði eftir í fari þeirra sem hann vildi fá í hóp leiðangursmanna á róðrarleiðöngrum voru flokkaðir sem persónuleikaraskanir. Fór hann í kjölfarið að kafa dýpra ofan í hvaða persónuleikaeinkenni fremsta þolíþróttafólk heims ber með sér.

Niðurstaðan þar var sú sama og hafði komið fram með þá ræðara sem hann vildi helst hafa með sér í teymi. Þeir bestu eru með einhverja persónuleikaröskun. Þetta eigi reyndar ekki bara við um afreksþolíþróttafólk heldur segir Fiann að margir af þeim sem við horfum til sem framúrskarandi einstaklinga á sviði vísinda, tækni eða menningar falli líka undir þessa skilgreiningu.

Þar með er þó ekki öll sagan sögð. Fiann segir það algengan misskilning að persónuleikaraskanir séu annaðhvort eitthvað sem fólk hafi eða hafi ekki. Raunin sé að raskanir séu á fjölmörgum rófum og fæstir séu þar í miðjunni, heldur hallist í aðra hvora áttina á hverju rófi. Flestir, ef ekki allir, hafi þannig einhver einkenni persónuleikaraskana, en þau einkenni séu þó mjög mismunandi og mismörg og misalvarleg.

Fiann fór yfir þessar hugmyndir í TEDx-ráðstefnu í Bandaríkjunum fyrr á þessu ári, en upptökuna má sjá hér að neðan.

Spurður hvort rétt sé að tala um raskanir ef flestir hafi einkenni þeirra segir Fiann að fræðilega sé það rétt þar sem raskanirnar séu í raun endinn á skalanum. Hins vegar sé mikilvægt að horfa ekki svart-hvítt á málið heldur að gera sér grein fyrir að við séum öll einhvers staðar á skalanum.

Meðal persónuleikaraskana sem til eru má nefna kleyfhugapersónuleikaröskun (schizoid), sjálflæga persónuleikaröskun (narcissistisk), þráhyggju-áráttupersónuleikaröskun (OCPD - obsessive-compulsive), andfélagslega persónuleikaröskun (antisocial), hæðispersónuleikaröskun (dependent) og passive-agressive-persónuleikaröskun. Þrjár fyrstu raskanirnar eru þær sem Fiann hefur helst skoðað og segir að geti borið með sér það sem hann kallar gjafir sáranna (e. gifts of wounds).

Þekktir frumkvöðlar og íþróttafólk 

Sem dæmi eru einkenni kleyfhugapersónuleikaröskunar að viðkomandi sé ótengdur öðrum, hann leiti ekki í munað heldur í einveru. Þá velur viðkomandi oft raunir og mótlæti sem ákjósanlegt umhverfi, sýnir litlar tilfinningar, tjáir sig lítið og er ónæmari fyrir stöðlum og öryggi. Fiann segir þessa röskun algenga í þeim sem skari fram úr á vísindasviði, sökkvi sér djúpt í viðfangsefni og lifi fyrir verkefnið, en leiti svo ekki viðurkenningar á afrekum sínum. Nefnir hann Steve Wozniak, annan stofnenda Apple, sem dæmi um einstakling með þessa röskun sem hafi nýtt hana til hins ýtrasta til að skara fram úr á sínu sviði og sé hún þar með eins konar gjöf fyrir hann frekar en eitthvað neikvætt.

Á róðri í Norðuríshafinu. Fiann Paul fremstur, þá Alex Gregory …
Á róðri í Norðuríshafinu. Fiann Paul fremstur, þá Alex Gregory og Carlo Facchino aftastur. Ljósmynd/Polar Row

Í tilfelli áráttupersónuleikaröskunar (OCPD) eru einkennin að viðkomandi sé sívirkur, eigi erfitt með að taka sér frí og sofi lítið. Þá er viðkomandi verkefna- og árangursmiðaður og vanur erfiðisvinnu og mikilli pressu. Þetta sé algengt hjá frumkvöðlum og nefnir hann Elon Musk sem gott dæmi um einstakling með þessa röskun. Vísar Fiann til þess að samstarfsfólk Musk hafi sagt að hann skilji ekki hugtakið frí eða að eiga gæðastund með fjölskyldunni. Hann setji vinnuna í fyrsta, annað og þriðja sætið, en sambönd hans líði fyrir það. Á móti hafi hann hins vegar leitt ákveðna þróun sem er til góða fyrir allt mannkyn. Fiann tekur fram að Musk sé einnig með ákveðin einkenni kleyfhugapersónuleikaröskunar.

Leið til að loka á sársauka

Fiann segir að á bak við persónuleikaraskanirnar séu oft sár eða áföll og að raskanirnar séu ákveðin leið hugans til að loka á sársaukann. Svo við tökum aftur dæmi um Musk hefur hann greint sjálfur frá því að hafa orðið fyrir miklu einelti í æsku. Hann hafi sagt að hann vilji gleyma æskunni og að hann geti ekki hugsað sér að rifja upp þessa tíma. Segir Fiann það ákveðna leið til að takast á við þessi sár fyrri tíma að einbeita sér endalaust að vinnunni. Í raun sé hann alltaf á hlaupum og takist ekki á við áfallið.

„Er jákvætt að einstaklingur þjáist til að bæta samfélagið í heild“

En er þá rétt að reyna að lækna eða meðhöndla persónuleikaraskanir sem þessar í stað þess að leyfa fólki að uppfylla möguleika sína og mögulega skara fram úr? Fiann segir ekkert eitt rétt svar við þessu. Persónuleikaraskanir sem hafi þessa mögulegu jákvæðu eiginleika veiti viðkomandi ekkert endilega mikla hamingju og séu oft erfiðar fyrir aðstandendur, en á sama tíma ákveðinn drifkraftur fyrir viðkomandi. Þá megi færa sterk rök fyrir því að heildaráhrifin fyrir samfélagið séu veruleg. „Þetta er sístæð spurning. Er jákvætt að einstaklingur þjáist til að bæta samfélagið í heild?“ spyr Fiann og segir að svar fólks fari líklegast eftir því hversu náið fólk sé viðkomandi.

Í tilfelli margra íþróttamanna sé það hins vegar vilji þeirra að ná langt og segir Fiann að skoða þurfi hvert tilvik fyrir sig. Þannig þurfi meðal annars að meta raunhæfa möguleika fólks að ná eins langt og það stefni og skoða persónuleika þess. Í framhaldinu sé hægt að vinna með einhverjar breytingar sem geti hjálpað því að ná árangri. „En fólk þarf að vilja þetta og það þarf einnig að skoða hvað það geti kostað,“ segir hann og bætir við að fólk þurfi að gera sér grein fyrir að raskanir geti skemmt fyrir öðru í lífinu. „Viðkomandi þarf að skilja hvað er raunverulega mögulegt og hvað raunverulega skipti máli,“ segir hann.

Var hans persónuleiki og vilji

Sjálfur segist Fiann í gegnum tíðina hafa unnið með góðum sálfræðingum til að vinna sín mál. Hann viti að gríðarleg einbeiting sín á æfingar og árangur væri líklega sálfræðilega hæpin, en þetta væri hans persónuleiki og hans vilji. Svarið hafi verið að gefa sér ekki fyrir fram hvað sé rétt eða rangt, heldur frekar að meta hverju þessi einhugur hans skili honum til baka. Í hans tilviki hafi þetta gefið honum möguleika á að ná langt og miklum árangri og hann hafi valið þá leið.

Úthafsróður felur í sér að róa í opnum bát yfir …
Úthafsróður felur í sér að róa í opnum bát yfir úfið úthafið í tugi daga. Hvíld er í lágmarki og áreynsla í hámarki. Ljósmynd/Fiann Paul

Þeir bestu fyrir teymið með kleyfhugapersónuleika

En þar sem Fiann hefur sína reynslu frá úthafsróðri. Hvaða eiginleikar eru það sem hann leitar að í róðrarteyminu? Fiann segir að hann myndi leita að sjaldgæfari útgáfu af kleyfhugapersónuleika þar sem fólk fær umbun í gegnum líkamlegt erfiði og er ekkert sérlega um annað fólk gefið. Þekkt dæmi um þetta er klifrarinn Alex Honnold, sem Óskarsverðlaunamyndin Free solo fjallaði um. Segir hann þessa einstaklinga almennt skara fram úr þegar komi að úthaldsgreinum og það geti einnig átt við um einstaklinga með áráttupersónuleikaröskun. „Þeir vilja alltaf ná lengra og eru ekki ósáttir með óþægindi eða svefnleysi. Flest ofurþolíþróttafólk er með þessi einkenni að einhverju leyti,“ segir Fiann.

Narcissísk persónuleikaröskun villandi framsetning

Ein röskunin sem birtir gjafir sáranna að mati Fiann er sjálflæg persónuleikaröskun, en hún er alla jafna þekkt sem narcissísk persónuröskun og er þar vísað í gríska goðið Narcissus sem elskaði eigin sjálfsmynd. Fiann segir þetta nokkuð villandi framsetningu á röskuninni og leggur til að nafninu verði breytt í „gegndarlaus sjálfsgæsla“ (e. excessive self preservation). Segir hann narcissíska röskun oft tengda við að einstaklingur elski eigið útlit, en rót vandans liggi í að viðkomandi hafi áður upplifað að vera ekki metinn út frá eigin verðleikum og sé því að verja sig með því að lyfta sjálfum sér upp, hvort sem það sé út frá útliti, ríkidæmi eða afrekum. En afleiðingar þess að taka þessa vörn aldrei niður séu þær að stuða aðra í samfélaginu.

Fiann hélt á þriðjudaginn fyrirlestur um reynslu sína og kenningar í Háskólanum í Reykjavík. Er yfirskrift fyrirlestursins „Róið yfir úthöfin: Gjafir sáranna og persónueinkenni könnuða.“ Hægt er að horfa á fyrirlesturinn hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert