Farfuglum fækkar um 20-30%

Spóinn er íslenskur farfugl og vaðfugl. Hann er langdrægur og …
Spóinn er íslenskur farfugl og vaðfugl. Hann er langdrægur og er því í meiri hættu en farfuglar sem fljúga styttra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Farfuglum hefur fækkað um 20-30 prósent í Evrópu á síðustu fimmtíu árum, sérstaklega hvað varðar langdræga farfugla, fugla sem fljúga 2.000 kílómetra eða lengra á milli varp- og ætisstöðva.

Helsta ástæðan fyrir þessari miklu fækkun er eyðing búsvæða á heimsvísu. Farfuglar virðast viðkvæmari fyrir henni en staðfuglar.

Þetta segir Tómas Grétar Gunnarsson, líffræðingur og forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurlandi. Hann hélt erindi í dag á líffræðiráðstefnu sem hófst í Öskju í dag. 

„Líffræðilegri fjölbreytni er að hnigna um allan heim og eitt dæmi um það eru farfuglar. Þeim er að fækka mjög víða. Það birtist til dæmis grein í tímaritinu Science um daginn sem sýndi þriðjungs fækkun fugla í norður Ameríku frá 1970. Í þessu fækkunarmynstri sjáum við að langdrægum farfuglum er að fækka meira en skammdrægum, þar eð að segja fuglum sem fljúga langt, 2.000 kílómetra eða lengra á milli varp- og ætisstöðva, þannig að það er einhver kerfisbundinn munur á milli langdrægara og skammdrægra fugla,“ segir Tómas. 

Jaðrakan er bæði vaðfugl og farfugl en hann flýgur mun …
Jaðrakan er bæði vaðfugl og farfugl en hann flýgur mun styttra en spóinn og er því skammdrægur. mbl.is/Sigurður Ægisson

Nota íslenska fugla til útskýringar

Hérlendis hafa íslenskir vaðfuglar verið rannsakaðir í um tuttugu ár. „Við erum að reyna að nota íslenska vaðfugla til að skýra almenn mynstur sem sjást í hnignun farfuglastofna um heiminn,“ segir Tómas.

„Þeir hafa að mörgu leyti líka lífshætti á Íslandi en þeir hafa mjög mismunandi farlengdir. Við erum að reyna að nota þetta kerfi til að sjá hver munurinn er á viðkomu lang- og skammdrægra farfugla í þessum hópi. Það sem kemur í ljós er að skammdrægu farfuglarnir koma miklu fyrr til landsins. Það veldur því að þeir hafa meiri tíma á vorin til að bregðast við því að það séu hlý vor,“ segir Tómas. Því verpa fuglarnir fyrr og þeim gengur betur með varp. 

Lóan er sömuleiðis skammdrægur farfugl og eru lífslíkur hennar því …
Lóan er sömuleiðis skammdrægur farfugl og eru lífslíkur hennar því meiri en til dæmis spóans. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Svo vantar eiginlega almennilega vöktun á okkar algengustu mófuglum sem flestir okkar vaðfuglar eru til þess að geta séð hvort þessi mynstur sem við sjáum og þessi mikli munur sem við sjáum sé að koma fram í stofnbreytingum. Hvort langdrægum farfuglum eins og spóum til dæmis sé að fækka á meðan skammdrægari fuglum eins og til dæmis Jaðrakan eða Lóu er ekki að fækka,“ segir Tómas. 

Á síðustu árum hafa verið sett upp kerfi sem telja fugla og því verður hægt að segja betur til um fækkun farfugla hérlendis eftir um 10 ár. 

Spurður hvort farfuglar séu verr staddir en staðfuglar segir Tómas: „Farfuglar eru náttúrulega háðir svæðum sem eru á mjög stórum skala. Þú ert með fugla sem verpa á Íslandi og fljúga alla leið til Afríku og ef þessir stofnar eiga að dafna þá þarf mjög margt að ganga upp. Staðfuglar sem dvelja hérna í norður Evrópu og nota svæðin sem eru vernduð, eru ekki háðir því að fólk sé að fara vel með landið einhvers staðar annars staðar.“

Tómas Grétar Gunnarsson.
Tómas Grétar Gunnarsson. Ljósmynd/HÍ

Dýpsta hrina útdauða tegunda

Meiri hætta stafar því að farfuglum en staðfuglum. „Vegna þess að farfuglar þurfa í raun að reiða sig á net svæða sem þeir nota yfir árið sem eru í mörgum löndum. Það er einmitt ástæðan fyrir því að við erum að gera alþjóðlega samninga um vernd fardýra og annarra þátta náttúrunnar til að reyna að tryggja að stofnar sem noti mörg lönd hafi athvarf alls staðar.“

Ástæður hnignunar í stofni farfugla eru fjölþætt áhrif mannsins á vistkerfi. 

„Við virðumst vera að ganga inn í stærstu eða dýpstu hrinu útdauða tegunda nokkurn tímann í jarðsögunni. Það er tvennt sem þessu veldur. Í fyrsta lagi eyðing búsvæða sem er stóra vandamálið,“ segir Tómas.

„Allt of mikið til af okkur“

Í öðru lagi eru það loftslagsbreytingar. „Mikið af svona fuglum og dýrum eru í árstíðabundnu umhverfi og eru aðlöguð að ákveðnum tímasetningum, að elta til dæmis toppa í fæðu sem verða á sumrin hérna á Íslandi og svo framvegis. Loftslagsbreytingar eru að riðla þessum tímasetningum.“

Þriðja ástæðan spilar þarna inn í, að sögn Tómasar. „Búsvæðabreytingarnar eru verstar en svo koma loftslagsbreytingarnar þarna ofan á og fleiri ágengar innfluttar tegundir. Við erum að flytja einhverjar tegundir milli heimshluta sem eru að hafa áhrif. Svo þetta eru fjölþætt áhrif mannsins. Það er allt of mikið til af okkur og við erum allt of frek á auðlindir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert