„Rjúpnaveiðitímabilið byrjar 1. nóvember og þá fer fjöldi fólks á fjöll. Við höfum orðið vör við það á þessum árstíma að menn eru að spyrja hver eigi land sem þeir vilja veiða á og hvort þar séu bönn eða takmarkanir í gildi. Menn þurfa alltaf að leita leyfis landeiganda þar sem þeir hyggjast veiða.“
Þetta segir Karl Arnar Arnarson, framkvæmdastjóri Loftmynda, í Morgunblaðinu í dag. Nú má sjá eignamörk jarða á vef Loftmynda, map.is. Þegar vefurinn er opnaður birtist valgluggi. Þar er smellt á „+“-merkið fyrir aftan Sérkort. Svo þarf að haka við „Eignamörk LM“ og „Friðuð svæði“ til að sjá landamerkin. Karl sagði að áreiðanlegar upplýsingar um eignamörk allra jarða lægju ekki á lausu.
„Við hjá Loftmyndum höfum lengi safnað þessum upplýsingum og ætlum að opna á þetta á map.is meðan veiðitímabilið stendur yfir. Það hefur ekki verið ákveðið með framhaldið. Öll gögnin eru aðlöguð, samsett og leiðrétt af Loftmyndum svo þau mynda heildræna þekju yfir landið,“ segir Karl.