Vísindamenn segjast vera hársbreidd frá uppgötvun sem mun valda straumhvörfum á sviði lækninga gegn Alzheimersjúkdómnum. Lyf sem bandaríska lyfjafyrirtækið Biogen hefur verið að þróa lofar góðu í baráttunni gegn sjúkdómnum.
„Við höfum aldrei komist svona langt, svona nálægt því að finna lækningu. Ef lyfið verður samþykkt verður það stærsta skrefið í baráttunni gegn Alzheimer frá upphafi,“ segir dr. Cath Mummery, yfirlæknir öldrunarlækninga við UCL-háskólann í London.
Lyfið, sem nefnist aducanumab, getur ekki læknað sjúklinga af Alzheimer en getur hægt verulega á ferlinu hjá þeim sem greinast snemma og gert þeim sem greinast kleift að vera lengur líkari sjálfum sér. Lyfið beinist að ákveðnum prótínum í heilanum sem valda Alzheimer og nái að „sópa“ þeim úr heilanum og þannig stöðva framgang sjúkdómsins.
Fréttirnar eru óvæntar að því leyti að í mars á þessu ári hætti fyrirtækið prófunum þar sem niðurstöðurnar ollu vonbrigðum. Nú hefur gagnamengið hins vegar verið stækkað og fyrstu prófanir lofa góðu.
„Ég veit ekki hvort lyfið virkar en ég veit að konan mín er ennþá manneskjan sem ég kynntist. Hún er enn þá konan sem ég hef verið kvæntur í 35 ár,“ segir Philip Robinson um eiginkonu sína, Charman Robinson, sem hefur tekið þátt í þróun á lyfinu. „Ég er þakklátur yfir það,“ bætir hann við en viðtalið við þau og dr. Mummery má sjá í myndskeiðinu neðst í fréttinni.
Of snemmt er að segja til um áhrifin sem geta orðið af lyfinu. Næsta skref að sögn vísindamanna er að koma því í gegnum samþykktarferli í byrjun næsta árs. Ferlið getur tekið allt að tvö ár.