Ískaldar ofurtölvur framtíðar nálgast

Ein af skammtatölvum Google, í tölvuveri fyrirtækisins. Slíkar vélar vinna …
Ein af skammtatölvum Google, í tölvuveri fyrirtækisins. Slíkar vélar vinna nærri alkuli, -273°C. Ljósmynd/Google

„Þetta er kapphlaup núna svolítið, um hver verður fyrstur,“ segir Anton Már Egilsson, sérfræðingur hjá upplýsingatæknifyrirtækinu Origo, um þau tíðindi sem Google sendi frá sér í síðustu viku, en bandaríski tæknirisinn segist hafa náð stóru skrefi í þróun skammtatölvutækni, svokölluðum „skammtafræðilegum yfirburðum“.

Þessum fréttum ætti að taka með smá fyrirvara, segir Anton, enda gengur kapphlaup fyrirtækjanna sem vinna að þróun skammtatölvutækninnar ekki síst út á að „henda fram einhverjum svona fréttum“ um áfanga í þróuninni, mögulega til þess að láta „reyna það líta út fyrir að menn séu komnir lengra en hinir eða þessir.“

Sérfræðingateymi Google sagði í vísindagrein í tímaritinu Nature að skammtatölva þeirra hefði náð að leysa verkefni á 200 sekúndum sem hefði tekið öflugustu ofurtölvu heims 10.000 ár að leysa. Í kjölfarið segist fyrirtækið hafa náð áðurnefndum „skammtafræðilegum yfirburðum“, en þeir felast í því að leysa reikniverkefni með hjálp skammtafræðinnar sem tæki hefðbundnar tölvur óraunhæfan tíma að leysa, tíma sem mældur er í árum, áratugum — já eða þúsundum ára eins og Google heldur fram.

Hér að neðan má sjá myndband frá Google um tilraunina sem fjallað var um í Nature.

Spurningamerki hafa verið sett við þessa fullyrðingu Google, þá helst af keppinaut þeirra á þessum vettvangi, bandaríska tæknifyrirtækinu IBM. Segja IBM-liðar að ofurtölva þeirra, Summit — sem er sú öflugasta í heimi og þekur svæði sem nemur tveimur körfuboltavöllum —gæti leyst prófið sem Google hreykir sér af á tveimur og hálfum sólarhring. Því er deilt um það hversu afrekið er mikið — hversu mikill áfangi þetta er í þróun skammtatölvutækninnar og hvort að rétt sé að tala um skammtafræðilega yfirburði yfir höfuð.

Þessari deilu allri eru gerð ítarleg skil í fróðlegri grein í veftímaritinu Quanta, en eins og þeir sem hana lesa komast að snýst deilan í grunninn um mismunandi skilgreiningar á hugtakinu um skammtafræðilega yfirburði. Um þetta verður eflaust áfram rifist.

Anton Már Egilsson, forstöðumaður skýja- og öryggislausna hjá upplýsingatæknifyrirtækinu Origo.
Anton Már Egilsson, forstöðumaður skýja- og öryggislausna hjá upplýsingatæknifyrirtækinu Origo. Ljósmynd/Aðsend

En hvenær er áætlað að skammtatölvur verði tilbúnar í sölu til viðskiptavina? Hverju munu þær breyta og hvaða verkefni verða þær nýttar í?

Anton Már, sem vel að merkja er starfsmaður fyrirtækis sem er með umboð fyrir bæði Google og IBM hérlendis, segir í samtali við mbl.is að framþróunin í skammtatölvutækninni hafi verið mikil á undanförnum árum. Hann gerir ráð fyrir því að um það bil fimm ár séu þangað til að eitthvað fyrirtæki sem vinnur nú að þróun skammtatölvu geti selt slíka græju til viðskiptavina sinna.

Google hefur lýst því yfir að það sé tímaramminn sem fyrirtækið horfi til og IBM hefur nýlega opnað fyrir aðgang að skammtatölvutæknihugbúnaði sínum í skýjalausn, svo notendur geta að einhverju leyti þegar byrjað að hagnýta reiknigetu skammtatölvu fyrirtækisins. Fleiri fyrirtæki eru að vinna að þróun tækninnar, til dæmis Microsoft og Intel.

Þarf að fara að mennta fólk á nýjan hátt

Anton segir að tilkoma skammtatölvutækninnar muni hafa það í för með sé að það þurfi að byrja að mennta fólk á nýjan hátt og stóru aðilarnir í geiranum geri sér grein fyrir því. „Þessi breyting mun þurfa að ná alla leið niður í skólakerfið og það hvernig við kennum tölvunarfræði og annað því þetta breytir því hvernig við höfum hugsað um tölvur síðustu áratugina,“ segir Anton.

„Það þarf að fara að huga að því í háskólasamfélaginu, því það getur alveg skilið á milli landa eða háskóla hversu vel menn taka á móti þessari nýju tækni, upp á það að Ísland verði frambærilegt í þessum heimi í framtíðinni,“ segir hann og bætir við að í Bretlandi og víðar um heim séu háskólar þegar farnir að bjóða upp á námslínur í skammtatölvutækni.

Google hefur lýst því yfir að innan fimm ára ætli …
Google hefur lýst því yfir að innan fimm ára ætli fyrirtækið sér að vera tilbúið að setja skammtatölvu á markað. AFP

Skammtatölvur eru nefnilega engar venjulegar græjur. Anton segir helsta þröskuldinn sem fyrirtæki þurfi að takast á við vera þann að finna út úr því hvernig hægt verði að koma þessum tölvum til viðskiptavina. Skammtatölvur þurfa að starfa í gríðarlegum kulda, í yfir -270 gráðu frosti eða nærri alkuli, og þær eru afar viðkvæmar og óstöðugar. Minnsti hristingur eða breytingar á umhverfisaðstæðum búnaðarins getur sett allt úr skorðum.

Reiknigeta skammtatölva er gríðarleg og segir Anton að vísindamenn sjái fyrir sér að stóraukin reiknigeta muni koma að miklu gagni í líftækni, lyfjaþróun, genarannsóknum og öðru slíku. Margar fréttir hafa svo verið sagðar af því að skammtatölvur gætu orðið eldsnöggar að leysa þá dulkóðunartækni sem notuð er í öryggisráðstöfunum í tölvuheiminum í dag.

„Við búum til dulkóðunartækni í dag sem hefðbundnar tölvur geta ekki leyst nema á mörgum árum. Sambærilega flókna útreikninga getur skammtatölva mögulega brotið á mínútum, þannig að menn eru farnir að huga að því að verja sig á nýjan hátt og koma með stærðfræðilega hluti sem eru flóknir eða ómögulegir fyrir skammtatölvuna á móti,“ segir Anton, sem telur þó stundum of mikið gert úr þessum þætti þegar fjallað sé um skammtatölvur.

„En við gætum verið að horfa á hluti gerða í læknavísindum og lyfjaþróun og slíku, sem eru bara engan veginn gerandlegir í dag. Það gætu verið jákvæðu hlutirnir fyrir heiminn, með þessari tækni,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka