Gagnaveita Reykjavíkur hefur hafið söfnun á upplýsingum um heimili þar sem talið er að ljósleiðaraþráður Gagnaveitunnar hafi verið aftengdur ólöglega af Mílu, samkeppnisaðila Gagnaveitunnar.
Fyrr í mánuðinum birti Póst- og fjarskiptastofnun ákvörðun sína þar sem fram kom að Míla hefði brotið reglur um innanhússfjarskiptalagnir í nokkrum tilvikum þegar fyrirtækið tengdi eigið kerfi í íbúðum og klippti á tengdan þráð Gagnaveitunnar, þótt laus aukaþráður væri til staðar.
Gagnaveitan sendi myndir frá fjölda íbúða til Póst- og fjarskiptastofnunar máli sínu til stuðnings. Flestum málunum var hins vegar vísað frá, en í átta tilfellum taldi stofnunin Mílu hafa brotið reglurnar, en um var að ræða íbúðir í Reykjavík, Hafnarfirði og Kópavogi.
Samkvæmt tilkynningu frá Gagnaveitunni í dag ætlar fyrirtækið nú að leita að fleiri tilfellum þar sem mögulegt brot hefur átt sér stað. Segir að markmið skráningarinnar sé að meta tjón neytenda af skertri samkeppni á fjarskiptamarkaði, meta beint tjón af skemmdum búnaði og auðvelda enduruppsetningu.