Trúin flytur fjöll!
Vilji er allt sem þarf!
Þetta eru orðtök sem við höfum oft heyrt.
Hugarfar (e. mindset) og þrautseigja (e. grit) eru til staðar í grundvallarhugsun Aristótelesar (384-322 f.Kr.) um siðfræði: maður verður að trúa á framþróun (grósku) til að þróast og maður verður að öðlast reynslu til að öðlast þekkingu. Þetta endurspeglast í nýlegum rannsóknum á hugarfari sem sýna að trúin á grósku veitir betri árangur í lífinu. Þó að Aristóteles sé sennilega ekki sá fyrsti sem kom fram með hugtökin þrautseigju og hugarfar, var hann líklega fyrstur til að innleiða þau í heimspeki og sálfræði náms.
Prófessor Carol Dweck við Stanford University kom fram með kenningu sína um hugarfar í kringum árið 1986. Dweck flokkar einstaklinga í tvær gerðir eftir hugarfari. Annars vegar eru þeir sem hafa festuhugarfar (e. fixed mindset) það er að segja þeir eru fastir í þeirri hugsun að þetta geti þeir ekki, hafa ekki trú á eigin möguleika á grósku. Hins vegar eru þeir sem hafa gróskuhugarfar. Þeir hafa trú á eigin möguleika á þróun. Niðurstöður rannsókna Dwecks sýna að gróskuhugarfar er lykillinn að velgengni í leik og starfi. Hún segir að lykilinn sé að hugsa „ekki enn þá“. Ef einstaklingur er spurður hvort viðkomandi kunni eða geti eitthvað þá á viðkomandi að svara, ef svarið er neikvætt: Ég kann þetta ekki enn þá eða ég get þetta ekki enn þá. Í því felst sú trú að maður geti náð að breyta þróun sinni til að bæta sig og öðlast kunnáttu eða ákveðna færni með þjálfun og tíma.
Til að verða framúrskarandi þurfa eftirfarandi atriði að vera til staðar: Mikil þjálfun eða reynsla (eða eins og Ericsson segir fæðast sérfræðingar ekki heldur verða til), ástríða, það er að segja gríðarlegur áhugi á ákveðnu sviði sem viðkomandi vill eyða miklum tíma í að verða betri í, þrautseigja, það er að segja viljinn og samviskusemin til að vinna vel, gróskuhugarfar, það er að segja að hafa trú á eigin möguleikum. Fræðimaðurinn Mihaly Csikszentmihalyi nefnir í þessu samhengi einnig mikilvægi þess að einstaklingar takist á við réttar áskoranir.
Ég hitti félaga minn Arne fyrir nokkrum dögum í æfingarmiðstöðinni við Háskólann í Þrándheimi. Ég spurði hann hvernig gengi og hann svaraði: „Ég lifi, þannig að það gengur fínt með mig. Nú er ég að fara í viku æfingabúðir til Innsbruck þar sem ég verð með alveg frábæran hollenskan skautaþjálfara og mun æfa tvisvar á dag í skautahöllinni. Takmarkið er að ná að bæta tæknina þar sem erfiðara er að bæta líkamlegu þættina (úthald og styrk). Markmiðið er að vinna allt á heimsmeistaramótinu því nú er ég á yngsta árinu í mínum aldursflokki.“ Arne segir að galdurinn sé að stoppa ekki, alltaf að halda áfram að æfa og vera líkamlega virkur og það allra mikilvægasta sé að setja sér háleit markmið. Arne, sem klárlega hefur gróskuhugarfar, er fæddur árið 1934.
Eflum gróskuhugarfar. Ég vil, ég skal og ég get.
Hermundur Sigmundsson, prófessor við Háskólann í Reykjavík og norska tækni- og vísindaháskólann í Þrándheimi.