Hár heilaaldur vísbending um sjúkdóma

Aðgerðir gervigreindar nýtast til að skoða tengsl erfða og starfsemi …
Aðgerðir gervigreindar nýtast til að skoða tengsl erfða og starfsemi heilans. Þetta er meðal niðurstaðna nýrrar rannsóknar vísindamanna Íslenskrar erfðagreiningar og Háskóla Íslands. mbl.is./Rax

Tengsl eru á milli þess að aldur heila mælist hærri en aldur viðkomandi einstaklings og verri frammistöðu í vitsmunaprófum, tilteknum erfðabreytileikum og heilasjúkdómum eins og geðklofa. Aðgerðir gervigreindar nýtast til að skoða tengsl erfða og starfsemi heilans. Þetta er meðal niðurstaðna nýrrar rannsóknar vísindamanna Íslenskrar erfðagreiningar og Háskóla Íslands.

Greint er frá þeim í vísindatímaritinu Nature Communications í dag. Um er að ræða rannsóknarverkefni Magnúsar Arnar Úlfarssonar og Benedikts Atla Jónssonar og var það unnið innan vébanda Íslenskrar erfðagreiningar. 

Í niðurstöðunum kemur m.a. fram að aðgerðir gervigreindar séu notaðar til að meta aldur út frá segulómmynd af heila og þannig megi kanna hvort aldur heilans víki frá raunverulegum aldri viðkomandi og þannig sé hægt að meta áhrif sjúkdóms á heila eða þátt heilans í tilteknum sjúkdómum. Ef segulómmyndin sýnir t.d. 35 ára heila, en lífaldur einstaklingsins er 30 ár, þá er hægt að tala um að frávik frá raunverulegum aldri sé fimm ár.

Magnús segir að hingað til hafi rannsóknir á heilaaldri fyrst og fremst beinst að áhrifum umhverfisþátta. „Það er ekki farið að nýta þetta í klínískum rannsóknum en þetta gefur okkur leið til að skoða tengsl erfða og heilastarfsemi. Þessi nýja aðferð býður upp á mörg tækifæri,“ segir hann.

Gervigreind sífellt meira nýtt í rannsóknum

„Þetta er skref á langri leið í rannsóknum á tengslum heilastarfsemi og erfða,“ segir Magnús. Hann segir að aðferðum gervigreindar sé sífellt meira beitt í rannsóknum og að það muni aukast. Slíkar aðferðir henti m.a. vel þegar verið sé að vinna úr miklu gagnamagni, eins og t.d. í erfðafræði, heilarannsóknum og á öðrum læknisfræðilegum sviðum. 

Í framhaldinu af rannsókninni skrifaði Benedikt meistararitgerð við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild Háskóla Íslands undir leiðsögn Magnúsar Arnar og Lottu M. Ellingsen. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert