Nokkur spenningur var í mönnum þegar starfsmenn Navis og Greenvolt prufukeyrðu frumgerð af fyrsta íslenska rafmagnsbátnum sem búinn hefur verið til hérlendis. Báturinn er hannaður þannig að rafhleðslan er inni í byggingarefninu sjálfu og hluti af bátsskrokknum.
Reynslusiglingin gekk framar vonum á þessu rúmlega metra langa líkani, að sögn Bjarna Hjartarsonar, hönnuðar hjá Navis.
Báturinn er kallaður Magnea og var skrokkurinn smíðaður hér á landi, en síðan sendur til Króatíu þar sem plötur úr koltrefjum voru festar á hann. Á sama tíma var yfirbyggingin byggð hérlendis og fyrri hluti vikunnar var síðan notaður til að ganga frá bátnum þannig að hann yrði sjófær.
Magnea-verkefnið er tvíþætt. Annars vegar er verið að leggja lokahönd á hönnun á rafmagnsbát, sem gengur fyrir hefðbundnum Lithium-rafhlöðum. Bjarni segir að stefnt sé á að byrja að smíða tæplega 15 metra 30 brúttótonna línubát í byrjun næsta árs. Mikill áhugi hefur verið frá útgerðum á verkefninu sem getur haft gífurlega jákvæð áhrif á kolefnisspor íslenska skipaflotans, að sögn Bjarna.
Báturinn var kynntur á Sjávarútvegssýningunni í haust og í grein í Morgunblaðinu kom fram að þessi orkugjafi yrði til muna umhverfisvænni heldur en þeir sem áður hafa verið notaðir. Einnig yrði báturinn hljóðlátari heldur en þeir eldri og rafhlaðan þjónaði um leið sem ballest þannig að aukið rými fengist um borð.
Hins vegar er um nýja tækni að ræða sem íslenska fyrirtækið Greenvolt er að þróa með þennan bát í huga. „Við vonum að þessi nýja tegund af rafmagnsbátum verði að veruleika á næstu misserum,“ segir Bjarni. „Þessi nýja tækni er ótrúleg en með nanó-tækni og koltrefjum í lögum er sama efnið bæði rafhlaða og bátsskrokkur sem er byggður úr þessum koltrefjum þannig að báturinn sjálfur verður ein stór fljótandi rafhlaða. Þessi nálgun gjörbreytir möguleikunum í hönnun rafmagnsbáta en lausnin er fullkomlega umhverfisvæn. Plássið sem vanalega væri nýtt fyrir rafhlöður er þá hægt að nýta í þarfari hluti.
Enn er unnið að þróun á rafhlöðum, fjármögnun verkefnisins og svo þarf að skoða regluverkið samhliða þessu. Við höfum sagt að við séum sannfærðir um að lithium-rafhlöður verði ekki ráðandi í framtíðinni og sannarlega er gaman að fá að taka þátt í þróun á framtíðinni. Við stefnum á að byrja með hefðbundnar rafhlöður og eftir því sem verkefnið þróast sjáum við fyrir okkur að geta framleitt Magneu í fullri stærð með skrokkinn sem risastóra rafhlöðu,“ segir Bjarni.
Í samtali við viðskiptablað Morgunblaðsins í byrjun þessa mánaðar sagði Ármann Kojic, stofnandi og framkvæmdastjóri Greenvolt meðal annars: „Við höfum unnið að því að skapa rafhlöðu framtíðarinnar sem notar svokallaða nanótækni og örefni (e. microforms) til að ná fram auknu yfirborðssvæði innan rafhlöðunnar til að geyma orku betur en áður hefur verið hægt. Um leið hefur okkar aðferð þann kost að nota má rafhlöðuna sem byggingarefni þeirra tækja sem hún knýr áfram – sem „strúktúr-rafhlöðu“ – og þannig getur t.d. húddið á bílnum, grindin á rafmagnshjólinu, eða jafnvel heill flugvélarvængur verið rafhlaða.“
Í viðtalinu kom fram að það ylli ekki hættu ef gat kæmi á Greenvolt-rafhlöðu eða hún dældaðist. Ef einhver t.d. boraði gat á rafhlöðuþynnuna myndi hann ekki fá í sig straum, og afkastageta rafhlöðunnar minnka aðeins sem næmi stærð gatsins.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu fimmtudaginn 28. nóvember.