Teymi íslenskra og bandarískra vísindamanna hefur verið sett á laggirnar til að rannsaka sýklalyfjaónæmi á Íslandi. Sérstaða landsins gerir það að ákjósanlegum vettvangi til að rannsaka þessa vaxandi ógn við lýðheilsu. Rannsókn teymisins er ætlað að skapa þekkingu til að viðhalda lágu hlutfalli ónæmis í landinu og vinna gegn þróun ónæmis annars staðar í heiminum.
Rannsóknin byggist á „einni heilsu“-aðferðafræðinni og nær þannig til manna, dýra, matvæla og umhverfis á landsvísu, með það að markmiði að auka þekkingu okkar á því hvernig sýklalyfjaónæmar bakteríur breiðast út. Ætlunin er að ná til sem flestra þátta með því að rannsaka E. coli-bakteríuna sem finnst í búfénaði, umhverfi, svo og á innlendum og innfluttum kjötvörum og bera þær saman við E. coli-bakteríur sem greinast í sýkingum í mönnum, að því er Matvælastofnun greinir frá í tilkynningu.
Rannsóknarteymið er skipað þverfaglegum sérfræðingum sem rannsaka munu vistfræði baktería og sýklalyfjaónæmis svo og áhrif þess á dýr, matvæli og menn. Þær stofnanir sem koma að rannsókninni eru Sýkla- og veirufræðideild Landspítalans, Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði á Keldum, MATÍS (matvælarannsóknir Íslands), Matvælastofnun; Aðgerðastofnun gegn sýklalyfjaónæmi, George Washington University, Washington DC (ARAC) og Vísindastofnun vistkerfis og þjóðfélags, Northern Arizona University, Arizona (ECOSS).