Kaloríuþörf mannkyns gæti aukist um 80% til ársins 2100. Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar þýskra vísindamanna við Háskólann í Göttingen. Vara þeir við að takist ekki að mæta þeirri þörf gætu afleiðingarnar orðið aukin misskipting í heiminum.
Að sögn vísindamannanna má rekja 60% aukinnar kaloríuþarfar til fólksfjölgunar. Spár Sameinuðu þjóðanna gera ráð fyrir að um 11,2 milljarðar manna muni byggja jörðina árið 2100, en þeir eru 7,7 milljarðar nú, en að mannfjöldi muni þá hafa náð ákveðnu jafnvægi. Það er fjölgun upp á um 45% en breytt aldurssamsetning skýrir mismuninn.
Þá er gert ráð fyrir að tæp 20% aukinnar kaloríuþarfar komi til vegna þess að fólk verði hærra og þyngra. „Aukningin á meðalkaloríuþörf milli áranna 2010 og 2100 verður um 253 kílókaloríur, sé gert ráð fyrir aukningu á þyngd og hæð,“ segir Lutz Depenbusch, einn rannsakendanna, við Alþjóðlegu grænmetismiðstöðina, í samtali við BBC. Það jafngildir um tveimur banönum.
Að sögn rannsakenda yrðu Afríkuríki sunnan Sahara mest fyrir barðinu á hinni auknu orkuþörf, og tækist leiðtogum heimsins ekki að bregðast við með alþjóðlegri matvælastefnu væri hætta á að aukin orkuþörf mundi leiða til hækkandi matvælaverðs og aukins ójöfnuðar í heiminum. Ríkari þjóðir gætu kyngt hærra matvælaverði, en fátækar síður.