Kínverskur vísindamaður sem segist hafa búið til fyrstu erfðabreyttu börn sögunnar var í dag dæmdur í þriggja ára fangelsi í heimalandinu fyrir ólöglegar tilraunir.
He Jiankui, vísindamaður sem segist hafa búið til fyrstu erfðabreyttu börn sögunnar, sagði á læknaráðstefnu í Hong Kong í nóvember að sér hefði tekist að breyta erfðaefni tvíburastúlkna. Faðir þeirra er með HIV að sögn He en breytingin á erfðamenginu þýði að dætur hans geti ekki smitast af veirunni. Í ræðu sinni á ráðstefnunni sagðist hann stoltur af vinnu sinni.
Erfðabreyting á fósturvísum eins og sú sem He segist hafa framkvæmt er bönnuð í flestum löndum heims.
He segir að átta pör hafi boðist til að taka þátt í frekari tilraunum. Í öllum tilvikum er karlinn HIV-smitaður en konan ekki. Eitt par hefur þegar hætt við þátttöku að sögn He eftir að umræða um tilraunina fór af stað í fjölmiðlum. He segir að niðurstöðum tilraunarinnar hafi verið lekið í fjölmiðla án sinnar vitundar og því sé hún nú í biðstöðu.
He sagðist hafa unnið að tilraununum í samstarfi við sjúkrahús í Kína en yfirmenn sjúkrahússins grunar að undirskrift á skjali um samþykkt tilraunarinnar sé fölsuð. Sjúkrahúsið hefur beðið lögregluna að rannsaka málið. Í yfirlýsingu spítalans segjast yfirmennirnir algerlega á móti genatilraunum á mönnum. Þá hefur háskólinn sem He starfar við neitað þátttöku og segir He hafa unnið að tilraunum sínum utan skólans.
Auk þess að vera dæmdur í fangelsi var He gert að greiða þrjár milljónir júana í sekt en það samsvarar 52,5 milljónum króna.
Auk He Jiankui voru tveir starfsbræður hans einnig dæmdir í morgun. Zhang Renli var dæmdur í átján mánaða fanelsi og til að greiða ein milljón júana í sekt. Qin Jinzhou fékk átján mánaða skilorðsbundinn dóm og hálfa milljón júana sekt.