Sir David Attenborough, náttúrulífssjónvarpsmaðurinn heimsþekkti, varar við hættuástandi í baráttunni gegn loftslagsvánni. „Við höfum verið að fresta hlutum ár eftir ár, nú blasir við hættuástand,“ segir Attenborough, og nefnir hann gróðureldana í Ástralíu sem dæmi.
„Í þessum töluðu orðum brennur Ástralía. Af hverju? Af því að hitastig jarðar er að aukast,“ segir Attenborough í viðtali við fréttamann breska ríkisútvarpsins.
Síðastliðinn áratugur hefur verið sá heitasti til þessa samkvæmt skráðum heimildum. Sameinuðu þjóðirnar greindu frá þessu í dag og vöruðu við því að búist væri við því að hærra hitastig myndi stuðla að öfgum í veðurfari á þessu ári og næstu árum.
Loftslagsmál voru fyrirferðarmikil á síðasta ári og ljóst er að raunin verður sú sama í ár. Lítill samhljómur var á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP25, sem fram fór í Madríd í lok síðasta árs. Á ráðstefnunni hittust fulltrúar næstum 200 landa til að ljúka við innleiðingu Parísarsáttmálans frá árinu 2001 en vegna mismunandi hagsmuna þjóða náðist ekki samkomulag, þrátt fyrir að víða hafi verið krafist aðgerða.
Næsta loftslagsráðstefna SÞ fer fram í Glasgow í nóvember. Attenborough segir að nauðsynlegt sé að grípa til aðgerða strax. „Við höfum verið að fresta markmiðum og segja: „Jæja, ef við gerum þetta innan tuttugu ára…“ Hættuástandið er til staðar. Við getum ekki lengur verið með undanbrögð,“ segir sir David Attenborough.