Apple gæti þurft að láta undan þrýstingi ESB

Getgátur eru uppi um að tónlistarveitan iTunes frá Apple muni …
Getgátur eru uppi um að tónlistarveitan iTunes frá Apple muni brátt heyra sögunni til. AFP

Tæknirisinn Apple gæti þurft að hætta með Lightning-tengikaplana sína á næstunni ef þingmenn Evrópuþingsins fá einhverju ráðið. Kapallinn er notaður til að hlaða Apple raftæki auk þess að færa gögn milli tækja.

Fréttastofa BBC greinir frá.

Þingmenn Evrópuþingsins samþykktu ályktun þess efnis á mánudaginn var að hvetja framkvæmdastjórn Evrópusambandsins til að þrýsta á tæknirisa eins og Apple og fleiri til að taka upp eina almenna hleðsluaðferð sem gæti nýst öllum eigendum raftækja óháð hver framleiðandi tækjanna er.

Til að hlaða raftæki sem ganga fyrir Android-stýrikerfinu er hægt að nota bæði USB-C og micro-USB kapla. En þeir virka ekki með Apple-raftækjum nema í undantekningartilvikum.

Kosning innan ESB væntanleg

Til stendur að kjósa um málið innan stofnana Evrópusambandsins en dagsetning hefur enn ekki verið ákveðin. Apple hefur mótmælt lagasetningu í þessa átt og segir að hún myndi koma í veg fyrir nýsköpun og koma niður á neytendum.

Ef það færi svo að lög eða reglugerðir þess efnis yrðu samþykktar af Evrópuþinginu myndi Apple þurfa að framleiða sérstök tæki fyrir Evrópumarkað með öðruvísi innstungu til að mæta kröfum.

Líklegast þykir að Apple myndi skipta yfir í USB-C tæknina en Apple hefur þegar skipt Lightning-tenginu út fyrir hana á nokkrum nýjum tækjum.

Lightning kapallinn gæti brátt heyrt sögunni til í Evrópu.
Lightning kapallinn gæti brátt heyrt sögunni til í Evrópu. Mynd/mbl.is

Ætlunin er að draga úr úrgangi

Hugmyndin um eina almenna hleðslutækni eða hleðslusnúru er ekki ný af nálinni hjá Evrópusambandinu en framkvæmdastjórnin hefur verið með hana sem baráttumál síðastliðinn áratug. Ástæðan er sú að ESB hefur það sem markmið að draga verulega úr raftækjaúrgangi sem er talinn vera um 51.000 tonn á ári.

„Þetta er gríðarlega skaðlegt fyrir umhverfið. Eitt almennt hleðslutæki ætti að vera til sem gæti hlaðið alla farsíma, skjátæki, lesbretti og önnur raftæki,“ sagði Alex Agius Saliba, þingmaður Evrópuþingsins.

Apple nýtti sér undanþáguákvæði til að komast hjá skuldbindingum

Árið 2009 voru 30 mismunandi gerðir af hleðslutækjum og snúrum fyrir raftæki til á almennum markaði en í dag standa aðeins þrjár gerðir eftir.

Apple og tíu önnur raftækjafyrirtæki, þar á meðal Nokia og Samsung, undirrituðu viljayfirlýsingu árið 2009 þess efnis að framleiða tæki sem gerði neytendum kleift að hlaða þau með micro-USB kapli.

Síðar nýtti Apple sér ákvæði í viljayfirlýsingunni sem leyfði framleiðendum að halda áfram að nota sína eigin tækni svo framarlega sem þeir útveguðu neytendum millistykki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert