Teymi vísindamanna við Cardiff-háskóla í Bretlandi hefur fundið leið til þess að nýta nýlega uppgötvaðan hluta ónæmiskerfis mannsins til þess að ráðast til atlögu við krabbameinsfrumur. Rannsóknirnar eru á algjöru frumstigi, en hafa mikla möguleika, að sögn hópsins sem skrifaði vísindagrein um tilraun sína í fræðitímaritið Nature Immunology.
Segist rannsóknarteymið hafa fundið leið til þess að ráðast að krabbameini í blöðruhálskirtli, brjóstum, lungum og fleiri líffærum, sem hafi gefið góða raun á rannsóknarstofunni. Enn er ekki búið að prófa aðferðina á sjúklingum.
BBC fjallar um málið og hefur eftir sérfræðingum við háskólann í Basel og háskólann í Manchester að vinnan sé ekki langt komin, en mjög spennandi.
Í frétt miðilsins segir að ónæmiskerfi mannsins sé náttúruleg vörn okkar gegn sýkingum, en leggi einnig til atlögu við krabbameinsfrumur. Vísindamennirnir við Cardiff-háskóla vildu finna „óhefðbundnar“ og áður óuppgötvaðar leiðir til þess að nýta þessa náttúrulegu vörn mannslíkamans gegn krabbameinsæxlum og komust að því að ákveðnar gerðir af T-frumum í blóði fólks geti verið nýttar til þess að ráðast gegn margvíslegum tegundum krabbameina.
„Það er möguleiki hérna á því að meðhöndla hvern einasta sjúkling,“ segir prófessorinn Andrew Sewell, sem vann að rannsókninni. „Áður trúði enginn að þetta væri mögulegt,“ bætir hann við, í samtali við BBC.
Hann segir að þessi uppgötvun veki von um að hægt verði að búa til eina krabbameinsmeðferð sem henti næstum því öllum, þar sem þessi eina tegund T-frumna fari um líkamann, finni og ráðist gegn fjölmörgum mismunandi krabbameinsfrumum. Að auki hafi komið í ljós, sem sé mikilvægt, að T-frumurnar ráðist ekki gegn heilbrigðum frumum líkamans.
Notkun T-frumna er þekkt í baráttunni gegn krabbameini og hefur líftæknilyfið CAR-T hjálpað mörgum sjúklingum með tilteknar gerðir krabbameina, sérstaklega blóðkrabbameina á borð við hvítblæði, frá því það kom á markað í kjölfar ónæmisrannsókna.
Þessi nýja uppgötvun vekur vonir um að hægt verði að nota T-frumur með sama hætti til þess að ráðast á fleiri gerðir krabbameinsfrumna, í fyllingu tímans.