Engin leið að vita hvenær gýs næst á Reykjanesi

Það sem er að gerast núna við Grindavík er sagt …
Það sem er að gerast núna við Grindavík er sagt kunna að vera fyrsta vísbending um að næsta goskviða sé í aðsigi. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er engin leið að vita það,“ er stutta svarið sem fyrirspyrjandi á Vísindavefnum fær við spurningu sinni um hvenær næst gjósi á Reykjanesskaga, en það sem er að gerast núna við Grindavík er þó sagt kunna að vera fyrsta vísbending um að næsta goshviða sé í aðsigi.

Af Vísindavefnum: Hvenær gýs næst á Reykjanesskaga?

Páll Einarsson, prófessor emeritus í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, segir í svarinu að einnig sé hægt að svara spurningunni í aðeins lengra máli, en þá takist á tvö grundvallarsjónarmið.

„Annað byggist á tölfræði, það er að hægt sé að segja eitthvað um framtíðina með því að skoða dreifingu atburða í fortíðinni. Vandamálið er að dreifingin gildir fyrir stórt safn atburða, næsti atburður er bara einn. Um einn atburð gildir engin tölfræði. Þetta á sérstaklega við um eldgos. Reynslan sýnir að fortíðin er í þeirra tilfelli sérlega erfið til forsagnar um framtíðina. Þess vegna eru margir frekar á þeirri skoðun að mælingar og eftirlit sé heppilegri leið til að segja fyrir um hegðun eldfjalls. Þá er reynt að finna út með mælingum í hvaða ástandi eldstöðin sé og beita síðan eðlisfræði eða efnafræði til að gera spá um þróun kerfisins,“ skrifar Páll í svarinu.

Tilraunir til að meta líkur á næsta gosi „marklitlar“

Í svarinu er einnig gripið niður í umfjöllun úr bókinni Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar um tilraunir sem hafa verið gerðar til þess að reikna út líkurnar á því hvenær næst muni gjósa á Reykjanesskaga.

Fyrsta tilraunin til þess að gera það var gerð árið 1992, en sú rannsókn erlendra jarðvísindamanna var „gölluð“ sökum þes að þá voru tekin með gos sem urðu í Brennisteinsfjöllum á 14. öld, en síðast gaus á Reykjanesskaga sjálfum á árunum 1210-1240. Niðurstaða vísindamannana var sú að 5-10% líkur væri á gosi á næstu 100 árum.

Önnur tilraun var svo gerð árið 2006, þegar haldbetri þekking hafði safnast um tímasetningu gosa. „Niðurstaðan var sú að 4-7% líkur væru á að næsta gosskeið hæfist innan 50 ára. Á sama hátt töldust líkur á nýju gosskeiði innan 200 ára 17-26%,“ segir á Vísindavefnum.

„Báðar þessar tilraunar eru marklitlar í ljósi nýrrar vitneskju um upphaf síðasta gosskeiðs. Nú er vitað að það hófst fyrir rúmum 1200 árum og þá um líkt leyti í tveimur eldstöðvarkerfum skagans,“ segir enn fremur, nauðsynlegt sé að þekkja gossöguna lengra aftur í tímann til að fá betra mat á gosvá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert