Facebook fjarlægir falsfréttir af kórónuveiru

AFP

Facebook hefur tilkynnt að færslur með röngum fölskum fréttum af kórónuveirunni, sem á upptök sín í kínversku borginni Wuhan, verði teknar úr birtingu. Sérstaklega á þetta við um illa rökstuddar samsæriskenningar sem slengt er fram í formi „frétta“ eða áreiðanlegra staðreynda.

Samfélagsmiðlarisinn segist vera að taka sig á í baráttunni gegn fölskum fréttum, að því er Metro greinir frá. Facebook vill að fólk fái réttar fréttir og upplýsingar um vírusinn frekar en t.d. myndskeið af fólki að borða leðurblökur eða um vafasamar lækningaaðferðir sem gagnast engum. Nú hafa yfir 17.000 manns greinst með veiruna og 362 látið lífið. 503 hafa þó lækn­ast af veirunni.

„Á meðan heilbrigðisstarfsfólk, víða um heim, vinnur að því að tryggja fólki öryggi styður Facebook starf sitt á ýmsa vegu, einkum með því að vinna að því að takmarka útbreiðslu rangra upplýsinga og skaðlegra frétta um veiruna og tengja fólk frekar við gagnlegar upplýsingar,“ segir í yfirlýsingu frá Facebook. Fyrirtækið segist fá utanaðkomandi aðila til að fara yfir færslur sem innihalda vafasamar fullyrðingar um kórónuveiruna. Þetta á einnig við um færslur á Instagram. Tilkynningar eru sendar til fólks sem deilir bulli um að það hafi verið staðreyndaskoðað. „Við munum einnig byrja að fjarlægja færslur með fölskum fullyrðingum eða samsæriskenningum sem hafa verið merktar af leiðandi alþjóðlegum heilbrigðissamtökum og heilbrigðisyfirvöldum. Um er að ræða færslur sem gætu valdið fólki skaða sem trúa þeim,“ segir jafnframt í tilkynningu frá Facebook sem Metro vísar til í frétt sinni. 

Samfélagsmiðillinn vitnar til þriggja falskra frétta, sem hafa verið í dreifingu um kórónuvírusinn sem á upptök sín í borginni Wuhan í Kína.

Efnavopn

Ein algengasta slúðursagan er að um efnavopn sé að ræða sem kínverski herinn hafi þróað í einhverju skúmaskoti í Wuhan sem hafi sloppið út. Þessu hefur þó verið hafnað og telja flestir sérfræðingar að veiran hafi orðið til á Huanan-fiskmarkaðnum í Wuhan.

Útbreiðslan með ráðum gerð

Jordan Sather, sem heldur úti vinsælli rás á Youtube, deildi þeirri samsæriskenningu með 115.000 fylgjendum sínum á Twitter nýverið að útbreiðsla kórónuveirunnar hafi verið úthugsuð. Hann vísaði í einkaleyfi sem Pirbright-stofnunin í Surrey á Englandi lagði fram og átti að tengjast þróun bóluefnis gegn veikari afbrigði af veirunni. Sather hélt því einnig fram á Youtube að samtök Bill og Melissa Gates fjármögnuðu rannsókn Pirbright-stofnunarinnar. Þetta reyndist rangt því talsmaður samtaka Bill og Melissa Gates sagði í viðtali við Buzzfeed að einkaleyfisvinnan næði einungis til smitandi berkjubólgu. „Gerðar voru breytingar á genamengi sem ber ábyrgð á að endurtaka erfðaefni veirunnar. Tilgangurinn var að veikja veiruna svo hún væri ekki lengur fær um að valda sjúkdómi. Hugsanlega er hægt að nota þessa aðferð við þróun bóluefnis. Þetta hefur þó ekki enn verið þróað til fulls. Einkaleyfisvinnunni lauk árið 2015 og er ekki lengur styrkt af Bill & Melinda Gates Foundation,“ var haft eftir talsmanninum.

Kína felur útbreiðsluna

Þriðja fréttin er sú að Kína sé að hylja raunverulegt umfang og útbreiðslu veirunnar. Sláandi fullyrðingum er slengt fram, eins og t.d. að „100.000 manns hafi þegar smitast af veirunni,“ sem þýðir að útbreiðslan sé mun alvarlegri en talið var. Það sé meira og minna ómögulegt að fá nákvæmar og áreiðanlegar tölur frá kínverskum yfirvöldum og ekki sé hægt að trúa þeim.

Þetta eru þó einu fréttirnar í flokki falsfrétta sem erfitt er að afsanna svo ekki er alfarið hægt að slá þær algjörlega út af borðinu. BBC hefur eftir kínverska aðgerðasinnanum Badiucao, sem hefur aðsetur í Ástralíu, að gegnsæi sé ekki til staðar í Kina. Erfitt sé að staðreyna fullyrðingar stjórnvalda um útbreiðsluna. Á meðan svo sé fá falsfréttir af þessum toga flug. Þær byggja á ágiskunum, fá marga smelli á netmiðlum, en valda ótta hjá almenningi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka