Helsta óvissan hve lengi ónæmið varir

Helsta óvissan er hve lengi ónæmið varir.
Helsta óvissan er hve lengi ónæmið varir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki eru nein staðfest tilfelli endursýkingar vegna kórónuveirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum og merki er um gott og verndandi ónæmissvar í kjölfar þess að einstaklingur nær sér af sýkingunni. Helsta óvissan er hversu lengi þetta ónæmi varir. Hvort það vari í tvö ár og dvíni svo, líkt og í SARS og MERS, eða endist ævilangt, en tveir síðarnefndu sjúkdómarnir eru einnig af völdum kórónuveiru, annarrar gerðar.

Þetta kemur fram í svari Jóns Magnúsar Jóhannessonar, deildarlæknis á Landspítalanum, við spurningu á Vísindavefnum hvort hægt sé að smitast aftur af kórónuveirunni. Hann segir mikilvægt að hafa í huga að ónæmisminni sem myndast gegn einni gerð kórónuveiru verndar ekki gegn annarri gerð.

Jón Magnús veltir í svarinu upp hvað liggi þá að baki fréttum um einstaklinga með endursmit eða versandi einkenni eftir útskrift. Eða einstaklinga sem voru orðnir neikvæðir við sýnatöku og einkennalausir en urðu svo aftur jákvæðir nokkrum dögum síðar.

Hann segir margar hugsanlegar orsakir geta legið þarna að baki og rannsóknir sýni fram á það.

Sjúklingar geta orðið betri en svo versnað aftur

Til að mynda sé vitað að veiran geti fundist í öndunarfærum einstaklinga í meira en 30 daga eftir upphaf einkenna. Þó að veiran finnist í sýni er það ekki endilega vísbending um að virkur sjúkdómur sé til staðar. Einstaklingur getur því veikst af öðrum ástæðum en áfram verið með veiruna til staðar við sýnatöku.

Þá geti prófin sem notuð er til að greina veiruna sýnt falska neikvæða niðurstöðu, sérstaklega þegar magn veirunnar er tiltölulega lítið.

Einnig er vitað að veiran getur bæði farið í efri og neðri öndunarfæri og fer alvarleiki veikindanna eftir dreifingunni. Sjúkdómurinn getur einnig valdið tvífasa veikindum með vægum einkennum til að byrja með sem versna gjarnan viku síðar. Þannig er hugsanlegt að tími alvarlegri veikinda geti verið lengri og lýst sér þannig að sjúklingur verði fyrst betri en versni síðan snögglega.

Þá fá einstaklingar með COVID-19 sjúkdóminn mismunandi meðferðir eftir löndum og spítölum. Margir hafa verið meðhöndlaðir með barksterum, ónæmisbælandi meðferð sem getur minnkað bólgu en einnig minnkað ónæmissvar við veirunni. Þetta gæti truflað mynstur veirunnar í sýnum og einnig leitt til þess að hugsanleg verri einkenni sýkingar geti komið fram eftir útskrift af spítala.

Jón Magnús segir enga ástæðu til að ætla að öðruvísi ónæmi myndist gegn þeirri kórónuveiru sem veldur COVID-19 heldur en þeim sem valda til dæmis SARS og MERS. Rhesusapar hafa sýnt gott mótefnasvar tveimur til þremur vikum eftir sýkingu af COVID-19. Það ásamt því sem almennt sé vitað um kórónuveiru bendi sterklega til þess að fólk myndi gott mótefnasvar og komi í veg fyrir endursýkingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka