Lygum og blekkingum eytt á Twitter

AFP

Twitter hefur eytt um 20 þúsund fölsuðum reikningum tengdum stjórnvöldum í Sádi-Arabíu, Serbíu og Egyptalandi. Eins hafa reikningar sem tengjast stjórnvöldum í Hondúras og Indónesíu brotið gegn stefnu Twitter.

Þetta kemur fram í frétt á vef en þar er haft eftir Yoel Roth, sem stýrir deild sem fylgist með hvort um falsaða reikninga sé að ræða, að þetta sé hluti þeirra vinnu við að verja miðilinn fyrir aðgerðum stjórnvalda víða um heim. Aðgerðum sem miða að því að skekkja umræðuna og dreifa fréttum sem þeim eru þóknanlegar.

Af þeim reikningum sem voru fjarlægðir tengdust 8.558 Framfaraflokki Serbíu (SNS) en forseti Serbíu, Aleksandar Vučić, er í flokknum. Þessir fölsuðu reikningar höfðu birt yfir 43 milljónir færslna á Twitter þar sem jákvæðum fréttum af ríkisstjórn Vučić var dreift af miklum móð og eins var níð um pólitíska andstæðinga hans allsráðandi. 

Jafnframt fjarlægði Twitter net 5.350 reikninga sem tengjast konungsfjölskyldunni í Sádi-Arabíu. Þar var að finna 36,5 milljónir færslna þar sem konungsfjölskyldan var lofsungin og/eða aðgerðir Katara og Tyrkja í Jemen voru gagnrýndar. 

Margir þeirra reikninga sem tengdust stjórnvöldum í Hondúras og var eytt virtust helst hafa það að leiðarljósi að drekkja neikvæðri umræðu um forseta landsins og mikið kapp var lagt á að deila jákvæðum fréttum um hann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka