Smitrakningarapp almannavarna varð aðgengilegt fyrir iPhone- og Android-síma í gær. Á miðnætti höfðu 23.500 hlaðið því niður af Play Store og 25.600 af App Store.
Frá þessu greindi Alma D. Möller landlæknir á upplýsingafundi vegna kórónuveirunnar. Þá sagði hún fleiri hafa bæst við frá miðnætti og að fyrir lægi að tæplega 75 þúsund manns væru nú með appið í notkun.
„Við viljum þakka fólki fyrir þessar frábæru viðtökur sem eru framar okkar vonum.“
Alma sagði smávægilega hnökrar hafa komið upp í appinu í Android hjá þeim sem hefðu stækkað letrið sem skalast ekki rétt á skjáinn. Unnið væri að lausn þess.
Þá þakkaði Alma fyrirtækjunum Aranja, Kolibri, Stokki, Sensa, Samsýn, Íslenskri erfðagreiningu og Syndis fyrir aðkomu sína að hönnun og forritun appsins.