Svarar spurningu um gagnsemi gríma

Starfsmaður á gjörgæsludeild Landspítalans.
Starfsmaður á gjörgæsludeild Landspítalans. Ljósmynd/Landspítali/Þorkell

Prófessor í erfðafræði við líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands svarar því á Vísindavefnum hvaða gagn grímur gera við Covid-19-smiti.

Hann segir að grímur komi einkum að gagni við tvenns konar aðstæður. Í fyrsta lagi til að verja heilbrigðisstarfsfólk gegn sýkingum þegar það umgengst fólk með Covid-19-sýkingu og eru þær þá hluti af víðtækum hlífðarbúnaði og vörnum. Um er að ræða sérstakar sóttvarnagrímur með gatastærð um 0,3 míkrómetra sem hleypa ekki í gegn örsmáum ögnum sem veirum. Þetta eru dýrar grímur sem eru af skornum skammti.

Í öðru lagi nefnir hann einfaldar grímur, sem geta þess vegna verið trefill eða annað klæði, sem eiga fyrst og frest að taka við dropum sem myndast við hóst og hnerra. „Talið er að SARS-CoV-2-veiran berist einkum milli manna beint með slíkum úðadropum, eða óbeint um fleti sem fólk snertir,“ skrifar Ólafur S. Andrésson prófessor.

Hann segir slíkar grímur geta dregið töluvert úr hættu á að smitaður einstaklingur smiti aðra en þær séu þó ekki fullkomin vörn og geti veitt falskt öryggi vegna þess að hinn smitaði geti vel borið smit með höndunum ef hann gáir ekki að sér.

„Sama er að segja um grímur sem vörn fyrir ósmitaða, þær geta veitt vörn fyrir hósta eða hnerrasmiti nálægs smitgjafa, en verja ekki fyrir snertismiti, beinu eða óbeinu, sem er algeng smitleið,“ skrifar hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert