Styðja áframhaldandi rannsóknir á malaríulyfi

Kórónuveiran lítur svona út.
Kórónuveiran lítur svona út. AFP

Svissneska lyfjafyrirtækið Novartis ætlar að taka þátt í klínískum rannsóknum á því hvort malaríulyfið hydroxychloroquine, sem Bandaríkjamenn hafa verið að nota á sjúklinga sem liggja inni á sjúkrahúsum vegna kórónuveirusmits, sé öruggt og virki á COVID-19.

Í tilkynningu frá Novartis í dag kemur fram að fyrirtækið hafi náð samkomulagi við bandarísku matvæla- og lyfjastofnunina FDA um að halda áfram með klínískar tilraunir í fasa III þar sem um 440 sjúklingar taka þátt í að meta hvort lyfið virki sem meðferðarúrræði við COVID-19. 

Sandoz, félag í eigu Novartis, mun útvega lyfið sem þarf til að nota við rannsóknina en það verður til reiðu á þó nokkuð mörgum stöðum í Bandaríkjunum innan örfárra vikna.

Starfsfólk IHU Mediterranee Infection Institute í Marseille sést hér halda …
Starfsfólk IHU Mediterranee Infection Institute í Marseille sést hér halda á Nivaquine, töflur sem innihalda chloroquine og Plaqueril, töflur sem innihalda hydroxychloroquine. AFP

Hydroxychloroquine hefur verið notað við malaríu og er verið að gera tilraunir með það víða um heim í baráttunni gegn kórónuveirunni líkt og annað malaríulyf, chloroquine.

Bæði lyfin hafa talsverðar aukaverkanir og í sumum tilvikum alvarlegar og miða rannsóknir nú að því að kanna virkni þeirra og öryggi. 

Yfirmaður lyfjamála hjá Novartis, John Tsai, segir að fyrirtækið geri sér grein fyrir mikilvægi þess að vísindalegum spurningum um hvort hydroxychloroquine sé sjúklingum til hagsbóta sé svarað. Reynt verði að svara þessu með því að gera tilraunir með lyfið þar sem samanburðarhópur fær lyfleysu. 

Hydroxychloroquine hefur vakið upp væntingar um að það geti nýst vel í baráttunni við kórónuveiruna í smærri rannsóknum í Frakklandi og Kína. Það er, að svo virðist sem það geti dregið úr veikindum fólks sem hefur orðið alvarlega veikt af völdum COVID-19.

Ýmsir vísindamenn eru hins vegar á verði og hvetja til ýtrustu varkárni þangað til stærri og víðtækari rannsóknir hafa farið fram. Að tryggt sé að lyfið virki og sé öruggt.

Novartis segir að slembival ráði því í hvaða þrjá hópa sjúklingarnir  sem taka þátt í rannsókninni lenda. Í fyrsta hópi séu þeir sem fá hydroxychloroquine, í öðrum hópunum fá sjúklingar lyfið með sýklalyfjameðferð og í þriðja hópum eru þeir sem fá lyfleysu.    

Vísindamenn hjá fyrirtækinu hafa unnið að baki brotnu við að undirbúa klíníska tilraun með stærri hóp en áður til þess að geta svarað spurningunni um mögulegar lyfjameðferðir eins fljótt og auðið er. 

Novartis leggur til 130 milljónir töflur af hydroxychloroquine til rannsóknarinnar. Eins myndi fyrirtækið hefja undirbúning að skráningu lyfsins ef í ljós kemur að það gefi góða raun.

Jafnframt mun Novartis styðja klíniskar rannsóknir á tveimur öðrum lyfjum, ruxolitinib, sem er selt undir vörumerkinu Javaki og canakinumab, sem skráð sem Ilaris en það hefur einnig verið gefið sjúklingum á sjúkrahúsum sem eru með COVID-19.

Líkt og fram kemur á vef embættis landlæknis og Vísindavef Háskóla Íslands fregnir af alvarlegum lungnasýkingum í Wuhan-borg í Kína í lok síðasta árs, þá af óþekktum orsökum.

Í kjölfarið var staðfest að um áður óþekkt kórónaveiruafbrigði er að ræða. Veiran var fyrst nefnt 2019-nCoV en vegna mikils skyldleika við SARS veiruna hefur hún nú hlotið nafnið SARS-CoV-2 og sjúkdómurinn kallast nú COVID-19. Veiran er ekki eins skæð og SARS eða MERS kórónaveirur sem höfðu 10% og 35% dánartíðni, en virðist mun meira smitandi og þessi faraldur hefur nú þegar haft mun meiri áhrif á heimsvísu en SARS faraldurinn hafði.

Kórónaveirur eru stór fjölskylda veira sem valda ýmsum sjúkdómum hjá mönnum og dýrum (meðal annars fuglum og spendýrum). Kórónaveirur eru þekkt orsök kvefs en þær geta einnig valdið alvarlegri lungnabólgu og jafnvel dauða. Fyrri sjúkdómshrinur sem vitað er að voru af völdum kórónaveiru voru MERS í Mið-Austurlöndum frá árinu 2012 og SARS sem barst frá Kína á árunum 2002–2003. SARS og MERS voru minna smitandi en inflúensa, en ollu faröldrum á ákveðnum svæðum og á sjúkrahúsum. Dánartíðni SARS- og MERS-sýkinganna var einnig mun hærri en fyrir inflúensu eða COVID-19.

Uppruni veirunnar virðist hafa verið í Wuhan borg í Kína og tengd ákveðnum matarmarkaði í borginni, sem verslaði með lifandi dýr og afurðir ýmissa dýra. Veiran virðist hafa borist úr leðurblökum, trúlega með annan, óþekktan, millihýsil áður en smit barst í menn og loks manna á milli.

Sjá nánar á Vísindavef HÍ

Einkenni COVID-19 líkjast helst inflúensusýkingu, hósti, hiti, bein- og vöðvaverkir, þreyta og svo framvegis. Meltingareinkenni (kviðverkir, ógleði/uppköst, niðurgangur) eru ekki mjög áberandi með COVID-19 en þó þekkt, líkt og við inflúensu og MERS. COVID-19 getur einnig valdið alvarlegum veikindum með neðri öndunarfærasýkingum og lungnabólgu, sem koma oft fram sem öndunarerfiðleikar á 4.–8. degi veikinda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert