Til stendur að skylda Facebook og Google til að deila auglýsingatekjum sínum með áströlskum fjölmiðlum, en fjármálaráðherra Ástralíu hefur gert samkeppniseftirliti landsins að semja eins konar siðareglur fyrir tæknirisana.
Fjallað er um málið á Guardian, en þar segir að ákvörðun Josh Frydenberg sé til þess fallin að sporna gegn hruni í auglýsingasölu ástralskra fjölmiðla.
Ástralska ríkisstjórnin lét gera rannsókn á tæknilegu umhverfi fjölmiðla í desember síðastliðnum og ákvað í kjölfarið að láta samkeppniseftirlitið semja siðareglur um samskipti fjölmiðla sem tæknifyrirtækjum á borð við Facebook og Google væri valkvætt en treyst til að fylgja.
Siðareglurnar felast í því að tæknirisarnir eigi að semja, í góðri trú, við fjölmiðlafyrirtækin um það hvernig risarnir skuli borga fjölmiðlunum fyrir notkun á efni, auk þess sem þeir skyldu ráðleggja fjölmiðlafyrirtækjum hvernig þau fengju sem mest út úr notkun samfélagsmiðla út frá sjónarmiði algóriþma, sem og gera upprunalegu efni fjölmiðla hærra undir höfði en öðru og deila gögnum með fjölmiðlunum.
Í ljósi bágra undirtekta tæknirisanna hefur verið ákveðið að gera þeim skylt að fara eftir siðareglunum, og verður þeim fylgt eftir með bindandi samkomulagi og tilheyrandi sektum.