Hefja tilraunir á bóluefni gegn kórónuveirunni á mannfólki

Reglulega er klappað fyrir heilbrigðisstarfsfólki í Bretlandi fyrir vel unnin …
Reglulega er klappað fyrir heilbrigðisstarfsfólki í Bretlandi fyrir vel unnin störf í baráttunni gegn kórónuveirunni. Tilraunir á bóluefni gegn COVID-19 á mannfólki hefjast við Oxford háskóla í vikunni. AFP

Rannsakendur við Oxford-háskóla í Bretlandi hefja tilraunir með bóluefni gegn kórónuveirunni á mannfólki síðar í vikunni. Bresk yfirvöld verja yfir 40 milljónum punda, eða sem nemur rúmum sjö milljörðum króna, í tvö rannsóknarverkefni sem miða að því að þróa bóluefni gegn veirunni. 

Hinn rannsóknarhópurinn er með aðsetur  í Imperial College í London og auglýst hefur verið eftir sjálfboðaliðum á aldrinum 18-55 ára til þáttöku í tilraunameðferðinni. Þeim er heitið á bilinu 190 til 625 pund fyrir þátttökuna, jafnvirði 34-112 þúsund króna, allt eftir því hverjar niðurstöðurnar verða. 

Matt Hancock, heilbrigðisráðherra Bretlands, sagði á upplýsingafundi í dag að hann væri himinlifandi yfir því að tilraunir Oxford-rannsóknarhópsins hefjist síðar í vikunni. 

Prófessor Sarah Gilbert fer fyrir rannsóknarhópnum sem hóf rannsóknir í janúar þegar erfðalykill veirunnar varð aðgengilegur. Vonir standa til að búið verði að prófa bóluefnið á 500 sjálfboðaliðum um miðjan maí. Ef þær prófanir lofa góðu verður bóluefnið prófað áfram á fleiri sjálfboðaliðum. 

Fjöldi staðfestra kórónuveirusmita í heiminum er kominn yfir 2,5 milljónir og 171.810 hafa látið lífið af völdum veirunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert