Nokkrir ofkældir verið endurlífgaðir

Felix Valsson og Ingunn Vilhjálmsdóttir æfa sig á lækningatæki.
Felix Valsson og Ingunn Vilhjálmsdóttir æfa sig á lækningatæki. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Ekki er hægt að segja með vissu hve langur tími gefst til að endurlífga fólk sem virðist vera látið eftir drukknun í köldu vatni eða ofkælingu, að sögn Felix Valssonar læknis. Hann er sérfræðingur í svæfingum og gjörgæslulækningum á Landspítala og fyrrverandi formaður Endurlífgunarráðs Íslands.

Felix stýrði endurlífgun tveggja pilta sem drukknuðu í Hafnarfjarðarhöfn 17. janúar. Þeir eru báðir komnir af sjúkrahúsi fyrir nokkru. Fleiri dæmi eru um Íslendinga sem tekist hefur að endurlífga með góðum árangri eftir mikla ofkælingu.

„Það eru til dæmi um fólk sem hefur kólnað mikið og verið í langri endurlífgun og lifað af,“ segir Felix. Hann segir að fólk í því ástandi sé oft sett á hjarta- og lungnavél. Ef hjartað hefur stoppað og það er ekkert blóðflæði í líkamanum er eina ráðið að setja sjúklinginn á slíka vél og hita hann upp.

Felix segir að frá síðustu aldamótum hafi upphitun ofurkaldra sjúklinga verið gerð á mun lengri tíma en áður tíðkaðist. Upphitunin er oftast stöðvuð í einn til tvo sólarhringa við 32-33 gráður til að vernda heilann, eins og gert var í tilfelli hafnfirsku piltanna sem var haldið í því ástandi í tvo sólarhringa. Kæling virðist geta varið og jafnvel snúið við byrjandi skaða sem heilinn verður fyrir við súrefnisskort. Heilinn er afar viðkvæmur fyrir súrefnisskorti og ef ekkert blóðflæði er til heila við eðlilegan líkamshita þá tekur ekki mikið meira en fimm mínútur fyrir heilafrumur að fara að deyja.

Svo virðist sem kuldi og ofkæling auki möguleikana á endurlífgun í sumum tilvikum.

Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag rekur Felix mjög frægt dæmi frá Norður-Noregi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert