Til þess fallnar að skemma frumur líkamans

Þegar veirur sýkja lífverur fara þær inn í frumur hennar …
Þegar veirur sýkja lífverur fara þær inn í frumur hennar og fjölga sér þar. AFP

Kraftmiklar aðferðir til að óvirkja veirur á ósértækan hátt, til dæmis með sterkum efnum eða orkuríkum geislum, eru líka til þess fallnar að skemma frumur líkamans. Fyrir þessu er sú einfalda ástæða að efnasamsetning lífvera og veira er náskyld að miklu leyti og eyðingarmáttur efnanna eða geislanna því keimlíkur.

Þetta segir í nýju svari á vísindavef Háskóla Íslands, þar sem svarað er spurningunni: „Er hægt að drepa nýju kórónuveiruna í mönnum með því að dæla sótthreinsivökva í þá eða nota orkuríka geisla?“

Donald Trump Bandaríkjaforseti stakk upp á því fyrr í vikunni að með þessu mætti vinna bug á veirunni.

„Þegar veirur sýkja lífverur fara þær inn í frumur hennar og fjölga sér þar. Því þarf sérhæfðar aðferðir til að ráða niðurlögum veira innan lífvera án þess að valda miklum skaða. Veirulyf beinast þannig oftast að mjög sértækum efnahvörfum sem tengjast ákveðnum veirum eða því hvernig veirurnar þekkja þær frumur sem þær sýkja,“ segir í svari vefsins.

Þróun krabbameinslyfja er sögð áhugaverð hliðstæða.

„Smám saman hafa þess háttar lyf orðið sértækari, en eldri lyf drápu heilbrigðar frumur til jafns við krabbameinsfrumur. Að sama skapi hafa mörg eldri sýklalyf skaðlegri áhrif á frumur manna en þau lyf sem helst eru notuð í dag.“

Svarið í heild sinni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert