Tilraunir á öpum lofa góðu varðandi bóluefni

Fjölmargir hópar vísindamanna vinna nú að þróun bóluefnis gegn kórónuveirunni.
Fjölmargir hópar vísindamanna vinna nú að þróun bóluefnis gegn kórónuveirunni. AFP

Nú stendur yfir alheimskapphlaup í því að þróa bóluefni gegn kórónuveirunni, en það er eru vísindamenn á rannsóknarstofu í Oxford háskóla sem eru komnir hvað lengst í þeim efnum. Tilraunir á öpum hafa gefið jákvæðar vísbendingar varðandi bóluefni frá þeim. The New York Times greinir frá.

Flest önnur teymi sem vinna að þróun bóluefnis þurfa öryggisins vegna að byrja á mjög litlum tilraunum með fáum þátttakendum. Vísindamenn við Jenner stofnunina í Oxford háskóla eru hins vegar komnir skrefi lengri en þessi teymi þar sem þeir hafa áður gert tilraunir með svipað bóluefni, þar á meðal gegn annarri tegund af kórónuveiru, og reyndust þau bóluefni ekki skaðleg mönnum.

Þessar fyrri tilraunir gera það að verkum að þeir fá leyfi fyrir því að prófa yfir 6.000 manns með bólefninu strax í lok næsta mánaðar. Vonast þeir til að geta sýnt fram á það sé ekki bara skaðlaust heldur líka að það virki í baráttunni gegn kórónuveirunni.

Vísindamennirnir segja að með neyðarleyfisveitingu frá yfirvöldum, geti milljónir skammta af bóluefninu verið tilbúnir í september og að þá verði hægt að bólusetja einstaklinga fyrir veirunni. Að minnsta kosti nokkrum mánuðum áður en önnur teymi hafa möguleika á því að kynna sitt bóluefni. En þetta veltur auðvitað á því að bóluefnið virki sem skyldi og hafa þeir strax fengið jákvæðar vísbendingar um það.

Aparnir smituðust ekki eftir bólusetningu

Vísindamenn á Rocky Mountain rannsóknarstofunni í Montana í Bandaríkjunum fengu nokkra skammta af bóluefninu í síðasta mánuði og prófuðu það á öpum sem svo var reynt að smita af kórónuveirunni. Apar sem ekki höfðu fengið bóluefnið smituðust af veirunni en þeir sem höfðu verið bólusettir smituðust ekki og reyndust þeir allir heilbrigðir 28 dögum síðar. Þetta staðfestir Vincent Munster, einn vísindamannanna, en aparnir eru þau dýr sem eru líkust mönnum. Hann tók þó fram að enn væri verið að greina niðurstöðurnar, en gerði ráð fyrir að því yrði lokið í næstu viku og þá yrði hægt að deila þeim með öðrum vísindamönnunum.

AFP

Það að apar hafi myndað mótefni gegn veirunni með því að fá bólusetningu er þó ekki staðfesting á því að bóluefnið veiti mönnum sömu vernd.

Kínverskt fyrirtæki, SinoVac, hefur líka hafið tilraunir á bóluefni sem er í þróun hjá vísindamönnum þar í landi, en þar eru þátttakendur aðeins 144. Þeir hafa einnig prófað bóluefnið á öpum með góðum árangri. Að þróa fleiri en eina tegund bóluefnis getur verið mikilvægt því hugsanlegt er að ein gerð virki kannski betur á einhverja hópa, eins og börn og eldra fólk. Þá getur það komið í veg fyrir að flöskuháls myndist ef ekki er hægt að anna eftirspurn.

Vilja halda fjölda smitum stöðugum næstu vikurnar

„Við erum eina fólkið í landinu sem vill að fjöldi smita haldist stöðugur í nokkrar vikur í viðbót svo við getum prófað bólefnið okkar,“ sagði Adrian Hill, prófessor við Jenner stofnunina, í nýlegu viðtali. Ekki er heimilt að smita heilbrigða einstaklinga af hættulegum sjúkdómum þannig eina leiðin til að prófa bóluefnið er að gera það á fólki á meðan veiran er að dreifast um með náttúrulegum hætti í kringum það.

Ef aðgerðir stjórnvalda, eins og reglur um samskiptafjarlægð, draga hins vegar úr útbreiðslu veirunnar með afgerandi hætti er hugsanlegt ekki verði hægt að sannreyna bóluefnið. Það getur nefnilega leitt til þess að þeir sem fá lyfleysu smitist ekkert frekar en þeir sem fá raunverulegt bóluefni. En þetta er ákveðið vandamál sem allir vísindamenn sem vinna að þróun bólefnis munu standa frammi fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert