Vélmenni sinna 3.000 pöntunum á dag

Hagræðingin við að vera með vélmenni í veitingageiranum er mikil að sögn frumkvöðulsins Priyesh Patel sem var að opna einn fullkomnasta bar heims á Hafnartorgi. Þau geta afgreitt 3.000 pantanir daglega og því getur barinn boðið upp á bjórglas á 500 krónur.

Patel sem opnaði staðinn ICE+FRIES um helgina ásamt viðskiptafélaga sínum Arnari Loftssyni kom hingað til lands í fyrsta skipti fyrir átta árum og féll samstundis fyrir landi og þjóð. Í myndskeiðinu segir hann frá hugmyndinni á bak við staðinn sem hann hyggst opna með svipuðu sniði víðs vegar um heiminn og þar mun íslensk tónlist, náttúra og matargerð verða í lykilhlutverki.  

Það er framúrstefnulegt um að litast inni á ICE+FRIES.
Það er framúrstefnulegt um að litast inni á ICE+FRIES. Skjáskot

Hann segir það vissulega ekki vera óskastöðu að opna í miðjum faraldri kórónuveirunnar en segir félagið vel fjármagnað og það geti staðið af sér storminn. Búið sé að fjárfesta fyrir um 2 milljónir dollara í undirbúningnum á síðustu tveimur árum. 

Patel sem er búsettur í Lissabon á fyrirtæki í netviðskiptum og fasteignafélög sem skila góðum tekjum en hann segist hafa mestan áhuga á sköpunarhlið viðskiptanna. Þessi nýja tegund veitingareksturs sé sérstaklega heillandi.  

Hægt verður að senda séróskir um kokteila á barþjónana Ragnar …
Hægt verður að senda séróskir um kokteila á barþjónana Ragnar og Flóka í gegnum app staðarins. Skjáskot

Í því markmiði að eyða meiri tíma hér á landi stofnaði Patel fyrirtækið GlacierFire ásamt Arnari félaga sínum fyrir rúmum tveimur árum en það framleiðir áfenga drykki með íslensku vatni fyrir lúxusmarkað. Á ICE+FRIES er stefnt að því að framreiða mat sem á rætur sínar í íslenskri matarhefð. Hrútspunga, lunda, hreindýr og lambakjöt en mest áhersla verður lögð á rétti sem byggja á frönskum kartöflum.

Priyesh Patel vildi eyða meiri tíma hér á Íslandi og …
Priyesh Patel vildi eyða meiri tíma hér á Íslandi og því stofnaði hann fyrirtæki hér. Skjáskot
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert