Skýrsla tilbúin um öryggi 5G-kerfa á Íslandi

Karlmaður gengur framhjá auglýsingu fyrir Samsung Galaxy S20 5G-snjallsíma í …
Karlmaður gengur framhjá auglýsingu fyrir Samsung Galaxy S20 5G-snjallsíma í borginni Seúl. AFP

Í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu hefur verið unnið frumvarp til nýrra heildarlaga um fjarskipti og er fyrirhugað að leggja það fyrir Alþingi innan skamms. Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði ákvæði um öryggishagsmuni vegna uppbyggingar farneta sem byggir á skýrslu og tillögum starfshópsins.

Þetta kemur fram í tilkynningu.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skipaði 29. janúar síðastliðinn starfshóp með fulltrúum utanríkisráðuneytis, dómsmálaráðuneytis auk samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis til að meta þörf á regluverki vegna öryggishagsmuna og ráðstöfunum sem til þess eru fallnar að auka öryggi 5G-kerfa á Íslandi og tryggja traust og trúverðugleika erlendra sem innlendra aðila á íslenska farnetskerfinu.

Sama dag gaf Evrópusambandið út rit með ráðleggingum um hvernig standa beri að því að bæta öryggi 5G-farneta, Cybersecurity of 5G networks – EU Toolbox of risk mitigating measures. Þessar ráðleggingar byggja á könnun meðal ríkja Evrópu á aðferðafræði við að stuðla að öryggi 5G-farneta og áhættugreiningu sem gerð var í kjölfarið. Eftir þessu riti hafði verið beðið, enda um að ræða afrakstur ítarlegs samráðs og fyrsta grunn samhæfðrar nálgunar ríkja á þessu sviði.

Starfshópur ráðuneytanna skilaði skýrslu sinni 11. febrúar sl. og gerði þar grein fyrir áskorunum varðandi öryggi 5G-farneta og alþjóðlegri þróun á því sviði. Meðal annars var fjallað um birgjakeðjuna, öryggismat og öryggisskuldbindingar og hvernig önnur ríki hafa og eru að taka á þessum áskorunum. Að lokum er í skýrslunni að finna valkostagreiningu og ráðleggingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert