Lyfjagjöf breytir litlu ef sjúkdómurinn er langt genginn

Remdesivir er loksins væntanlegt til landsins.
Remdesivir er loksins væntanlegt til landsins. AFP

Veirulyfið Remdesivir er einungis notað sem meðferð við alvarlegum veikindum. Þar sem að enginn sjúklingur er í öndunarvél sem stendur og fáir liggja veikir inni á sjúkrahúsi vegna COVID-19 er óljóst hvort að það þurfi að nota lyfið. Það er ekki hægt að fullyrða að aðgangur að því hefði skipt sköpum þegar faraldurinn var í hámarki en það hefði verið gott að hafa möguleikann á því, segir Magnús Gottfreðsson, yfirlæknir á Landspítala og prófessor í smitsjúkdómum við læknadeild HÍ.

„Þetta er í raun og veru úrræði sem við munum beita þegar og ef til fleiri alvarlegra tilfella kemur. Það er auðvitað alveg óljóst og vonandi kemur ekki til þess en við viljum vera við öllu búin ef við skyldum greina fleiri einstaklinga sem þyrftu að fara á gjörgæslu eða á öndunarvél,“ segir Magnús í samtali við mbl.is

Bandaríska matvæla- og lyfjaeftirlitið gaf í fyrradag út neyðarleyfi fyrir notkun á lyfinu sem meðferð gegn COVID-19 sjúkdómnum. Bandarísk rannsókn bendir til þess að lyfið stytti bataferli sjúklinga um allt að fjóra daga. Lyfið er væntanlegt til landsins innan tíu daga en Landspítalinn hefur reynt að fá það síðan faraldurinn fór af stað hér á landi.

Hefðu tekið lyfinu fegins hendi

Lyfið er gefið í æð einu sinni á dag í fimm daga eða tíu daga. Niðurstöður prófana benda til þess að fimm daga meðferð virðist skila jafn góðum árangri og tíu daga meðferð og gerir Magnús ráð fyrir því að fimm daga meðferð verði staðallinn hér á landi.

Telur Magnús að það hefði skipt sköpum að fá lyfið þegar faraldurinn var í hámarki?

„Það er auðvitað mjög erfitt að fullyrða um það en auðvitað hefði verið gott að hafa aðgang að þessu lyfi eða möguleikann á því nálgast það fyrir þann takmarkaða hóp sem var á öndunarvél hjá okkur. Þannig að við hefðum tekið því fegins hendi.“

Magnús Gottfreðsson er yfirlæknir á Landspítala og prófessor í smitsjúkdómum …
Magnús Gottfreðsson er yfirlæknir á Landspítala og prófessor í smitsjúkdómum við læknadeild HÍ. mbl.is/Golli

Kínversk rannsókn greindi engan mun

Magnús bendir á að í kínverskri rannsókn sem birtist í læknatímaritinu The Lancet á miðvikudaginn síðastliðinn hafi enginn marktækur munur fundist á milli hóps sem fékk lyfleysu og hóps sem fékk Remdesivir. Hann tekur þó fram að rannsakendur í Kína hafi ekki náð að ljúka þeirri rannsókn vegna of fárra sjúklinga sökum þess hve faraldurinn gekk hratt yfir.

„Það er alltaf erfitt að túlka niðurstöður úr rannsókn sem ekki tekst að ljúka vegna of fárra sjúklinga en þar fannst enginn tölfræðilega marktækur munur á milli lyfleysuhóps og hópsins sem fékk Remdesivir. Það segir okkur að í þessum tilvikum þar sem sjúklingarnir eru orðnir mjög veikir og kannski komnir með fylgikvilla þá er ávinningurinn af þessari meðferð takmarkaður,“ útskýrir hann.

Því fyrr sem meðferð er hafin því betra

„Það er sennilega með þessar sýkingar eins og margar aðrar að við höfum ákveðinn glugga sem er opinn í ákveðinn tíma og ávinningurinn af meðferðinni er bundinn við það að þessi gluggi sé opinn. Ef sjúkdómurinn er mjög langt genginn þá breytir lyfjagjöfin mjög litlu. Ég hef sjálfur trú á því að ávinningurinn af svona meðferð sé þeim mun meiri því fyrr sem meðferð er hafin hjá þeim sem eru í aukinni hættu á að fá fylgikvilla af þessari sýkingu,“ bætir hann við.

Tekur hann fram að það sé framtíðarverkefni að rannsaka það betur. Þangað til verði rannsóknin sem kynnt var í Bandaríkjunum gríðarlega mikilvæg vegna þess að í henni er sýnt fram á það með óyggjandi hætti að lyfið hefur heilmikið að segja og styttir einkennatímann. Magnús bætir því við að rannsókn Bandaríkjamanna hafi verið betur gerð en margar aðrar rannsóknir og uppfyllt ströngustu skilyrði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert