Hægt að hindra útbreiðslu þrátt fyrir lágt hjarðónæmi

Með þau verkfæri sem við búum yfir er hægt að …
Með þau verkfæri sem við búum yfir er hægt að bregðast hraðar við nýjum tilfellum með markvissari og víðtækari hætti og ef hægt er að hafa stjórn á nýjum tilfellum má með góðu móti koma í veg fyrir útbreiðslu kórónuveirunnar að nýju þrátt fyrir lágt hjarðónæmi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Líklegast er hjarðónæmi gegn kórónuveirunni hérlendis enn sem komið er lágt og engan veginn nógu hátt til að koma alfarið í veg fyrir annan faraldur ef ekkert er að gert. Hins vegar höfum við þegar lært ótalmargt um COVID-19, eiginleika hans, dreifingu og hvernig viðbrögð við honum móta sjúkdóminn frekar.

Með þau verkfæri sem við búum yfir er hægt að bregðast hraðar við nýjum tilfellum með markvissari og víðtækari hætti og ef hægt er að hafa stjórn á nýjum tilfellum má með góðu móti koma í veg fyrir útbreiðslu kórónuveirunnar að nýju þrátt fyrir lágt hjarðónæmi. 

Þetta kemur fram í svari Vísindavefs Háskóla Íslands við spurningunni Hvernig getur faraldur eins og COVID-19 náð hámarki og dvínað svo án þess að hjarðónæmi hafi náðst?

Í svari Vísindavefsins segir að faraldrar smitsjúkdóma séu margslungnir og flóknir, sem geri það að verkum að erfitt sé að spá fyrir um þróun þeirra. Þeir eigi það þó nær allir sameiginlegt að dvína með tímanum, gjarnan samkvæmt svokölluðu hjarðónæmi.

Hjarðónæmi (e. herd immunity) er hugtak sem endurspeglar dreifingu ónæmis fyrir vissum sýkli í tilteknu samfélagi. Hjarðónæmi getur þróast í kjölfar sýkinga eða bólusetninga, og er oftast skilgreint eftir því hversu stórt hlutfall samfélags býr yfir tilteknu ónæmi. Með vaxandi hjarðónæmi verður um leið erfiðara fyrir faraldur að spretta upp og herja á tiltekið samfélag og hjarðónæmisþröskuldur (e. herd immunity threshold) er það magn hjarðónæmis þar sem smitsjúkdómur nær ekki að mynda nýjan faraldur innan samfélags. 

Það fer eftir smithæfni (e. infectivity), smitleiðum og öðrum flóknum samfélagsþáttum hversu hár þessi þröskuldur er. Smithæfni er gjarnan metin með því að skoða ákveðinn smitstuðul (e. reproduction number): hversu marga mun einn einstaklingur ná að smita á meðan hann er smitandi - því hærri sem stuðullinn er, því meiri er smithættan.

Hjarðónæmi er ekki eini þátturinn sem stýrir smitstuðli, heldur liggur þar margt að baki, til að mynda samskipti milli einstaklinga í samfélagi, viðbrögð samfélagsins við faraldri og umhverfisþættir eins og hitastig, veðurfar og fleira. Til að flækja þetta enn frekar er smitstuðullinn einn sér ýmsum annmörkum háður og gerir til dæmis ráð fyrir að allir séu jafnlíklegir til að smitast og smita aðra, sem á alls ekki við í hinum raunverulega heimi.

Heimsfaraldurinn COVID-19 er vegna veiru sem smitast fyrst og fremst með dropa- og snertismiti. Einstaklingar með COVID-19 virðast vera mislíklegir til að smita og enn er óljóst hvað því veldur. Við vitum að COVID-19 dreifist sérstaklega vel innan hópa sem eiga í nánum samskiptum, til dæmis fjölskyldur og vinir. Því hafa stjórnvöld beitt þjóðfélagslegum úrræðum á borð við samkomubönnum og ráðleggingum um fjarlægð milli einstaklinga til að takmarka smit innan samfélagsins. Þessi úrræði minnka einnig smitstuðul og um leið minnkar vægi hjarðónæmis - í raun lækkar þá hjarðónæmisþröskuldurinn um leið. Eftir því sem inngrip verða meiri, því minna hjarðónæmi er nauðsynlegt til að halda faraldrinum í skefjum.

Hins vegar er alltaf hætta á að nýr faraldur blossi aftur upp. Þegar búið er að létta á inngripum hækkar hjarðónæmisþröskuldurinn á móti, með tilheyrandi hættu á nýjum faraldri.

Líklegast er hjarðónæmið hérlendis enn sem komið er lágt - og engan veginn nógu hátt til að koma alfarið í veg fyrir annan faraldur ef ekkert er að gert. Hins vegar höfum við lært ótalmargt nú þegar um COVID-19 - eiginleika hans, dreifingu og hvernig viðbrögð við honum móta sjúkdóminn frekar. Með þau verkfæri sem við búum nú yfir er hægt að bregðast hraðar við nýjum tilfellum með markvissari og víðtækari hætti. Ef hægt er að hafa stjórn á nýjum tilfellum COVID-19 má með góðu móti koma í veg fyrir útbreiðslu faraldursins að nýju, þrátt fyrir lágt hjarðónæmi. Meðan beðið er eftir meðferðum og bólusetningum er það hughreystandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert