Jákvæðar niðurstöður úr klínískum rannsóknum

Róbert Wessman, stofnandi og stjórnarformaður Alvotech.
Róbert Wessman, stofnandi og stjórnarformaður Alvotech. Ljósmynd Ari Magg

Líftæknifyrirtækið Alvotech hefur unnið að þróun hliðstæðu lyfsins Humira, sem er meðal annars notað við liðagigt, og eru niðurstöður klínískra rannsókna fyrirtækisins jákvæðar.

Í fréttatilkynningu frá Alvotech er talað um líftæknihliðstæðu á söluhæsta lyfi heims undanfarin ár. „Um er að ræða líftæknilyfshliðstæðu lyfsins Humira sem er í dag söluhæsta lyf heims og selst fyrir um 20 milljarða Bandaríkjadala á ári (um 2.500 milljarðar króna). Fyrirtækið tilkynnti í mars á síðasta ári um fasa I og fasa III klínískar rannsóknir í 23 löndum vítt og breitt um Evrópu með þátttöku 900 einstaklinga. Þeim rannsóknum er nú lokið með jákvæðum niðurstöðum,“ segir í fréttatilkynningu frá Alvotech. 

Róbert Wessman, stofnandi og stjórnarformaður Alvotech, segir í fréttatilkynningunni það mikilvægan áfanga fyrir fyrirtækið að tilkynna jákvæðar niðurstöður fyrstu klínísku rannsókna fyrirtækisins. 

„Í dag eru átta líftæknilyf í þróun hjá Alvotech og við höldum áfram að styrkja okkar innviði og fjárfesta í framtíðinni. Um 460 vísindamenn og sérfræðingar starfa nú hjá Alvotech í fjórum löndum og við væntum þess að geta haldið áfram að fjárfesta í íslensku efnahagslífi á næstu árum og skapa mikilvægar útflutningstekjur,“ segir Róbert.

Alvotech mun framleiða og selja líftæknihliðstæðu lyfsins Humira í samstarfi við aðra á öllum lyfjamörkuðum heims. „Með tilkomu lyfsins skapast umtalsverður sparnaður fyrir heilbrigðisyfirvöld um allan heim og rannsóknir hafa jafnframt sýnt fram á aukið aðgengi sjúklinga að nýjum líftæknilyfjum, þegar líftæknihliðstæðulyf koma á markað. Líftæknilyfshliðstæða Alvotech er frábrugðin lyfjum samkeppnisaðila að því leyti að það er 100 mg/ml formúlering, sem er talin þægilegri fyrir sjúklinga,“ segir í tilkynningu Alvotech. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert