Veiran geti borist með tali

Rannsóknin var birt í vísindatímaritinu Proceedings of the National Academy …
Rannsóknin var birt í vísindatímaritinu Proceedings of the National Academy of Sciences of the United States of America, en niðurstöður hennar sýna að smádropar sem spýtist út úr munni fólks þegar það talar geti hangið í loftinu í allt að tólf mínútur í lokuðu rými. AFP

Niðurstöður nýrrar rannsóknar á smitleiðum kórónuveirunnar Sars-CoV-2 sem veldur COVID-19-sjúkdómnum gefa til kynna að veiran berist ekki ekki aðeins manna á milli með hósta og hnerra heldur einnig þegar fólk talar.

Um rannsóknina er fjallað á þýska miðlinum Welt, en þar segir að hugsanlega sé um að ræða algengustu smitleið kórónuveirunnar.

Rannsóknin var birt í vísindatímaritinu Proceedings of the National Academy of Sciences of the United States of America, en niðurstöður hennar sýna að smádropar sem spýtist út úr munni fólks þegar það talar geti hangið í loftinu í allt að tólf mínútur í lokuðu rými.

Í rannsókninni var þátttakandi látinn endurtaka ensku setninguna „Stay healthy“ í lokuðu rými í 25 sekúndur samfleytt. Svo var leysigeisla beint inn í herbergið þannig að hægt væri að sjá og telja smádropana sem mynduðust í loftinu er hann talaði. Droparnir entust að meðaltali í 12 mínútur.

Vitað er að kórónuveiran finnst í talsverðu magni í munnvatni sýktra einstaklinga, og telja vísindamennirnir sem að rannsókninni stóðu að fyrir hverja mínútu sem einstaklingur talar geti hann gefið frá sér allt að þúsund smádropa út í loftið, en færri ef hann talar lægra.

Ef hægt verður að sannreyna niðurstöður rannsóknarinnar, að kórónuveiran berist manna á milli þegar þeir tala, gæti það útskýrt hraða útbreiðslu kórónuveirunnar í heiminum, að því er segir í umfjöllun Welt. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert