Náðu mesta nethraða sögunnar

Vísindamennirnir vonast til að rannsóknir þeirra geti hjalpað til við …
Vísindamennirnir vonast til að rannsóknir þeirra geti hjalpað til við að umbylta ýmsum geirum sem reiða sig á mikið magn gagna.

Teymi vísindamanna við háskólana Monash, Swinburn og RMIT í Ástralíu náði mesta nethraða sem mælst hefur, í tilraun á dögunum. Mældist hraðinn 44,2 terabitar á sekúndu (um 5,5 terabæt á sekúndu). Á þeim hraða mætti hala niður um þúsund kvikmyndum í mestu gæðum á innan við sekúndu.

Athygli vekur að metið hafi verið slegið í Ástralíu, en nethraði í landinu þykir almennt ekkert til að hrópa húrra fyrir. Landið er nokkurn veginn fyrir miðju á alþjóðlegum listum yfir nethraða, langt fyrir neðan önnur Vesturlönd.

Vísindamennirnir segja að til þess að slá metið hafi þeir notað tæki sem skipti um 80 leysigeislum, sem finna má í hefðbundnum símbúnaði, út fyrir tæki sem þeir nefna örgreiðu (e. micro-comb). Vonast rannsakendurnir til að aðferðir þeirra gefi innsýn í það hvernig nettengingar framtíðarinnar gætu verið. 

Þótt nethraðinn sem þeir náðu sé miklum mun hærri en nokkur almennur neytandi gæti þurft á að halda, segir Bill Corcoran, lektor í rafmagns- og tölvuverkfræði við Monash-háskólann, að aðferðirnar gætu hjálpað til við að umbylta ýmsum geirum sem reiða sig á mikið magn gagna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert