Allt er eins klárt og það verður fyrir geimskot Crew Dragon-geimferjunnar frá Flórída á morgun en um er að ræða fyrsta mannaða geimskotið frá Bandaríkjunum í áratug.
Crew Dragon er geimferja SpaceX, sem er í eigu Elon Musk, og á að geta flutt fólk út í geim. Fyrsta geimferja SpaceX af þessari gerð hélt ómönnuð út geim í mars í fyrra með góðum árangri.
Crew Dragon verður skotið á loft á morgun frá Kennedy-geimflugstöðinni í Flórída en Falcon 9 eldflaug SpaceX verður notuð til að koma geimfarinu til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar. Skotglugginn opnast klukkan hálffimm síðdegis að staðartíma á morgun.
Team is performing additional pre-flight checkouts of Falcon 9, Crew Dragon, and the ground support system ahead of tomorrow’s Demo-2 mission. Weather forecast for launch is 60% favorable. pic.twitter.com/RgzkPfS8LW
— SpaceX (@SpaceX) May 26, 2020
Bandaríkin hafa ekki getað sent fólk út í geim með geimförum sínum síðan 2011. Þess í stað hafa þeir fengið geimför að láni frá Rússum.
Geimfararnir Bob Behnken og Dough Hurley verða um borð í geimferjunni og munu þeir dvelja í allt að þrjá mánuði í geimstöðinni.
Notkun Crew Dragon-geimferjunnar er fyrsti liður í áætlun Bandaríkjanna að senda geimfara til Mars árið 2024.
Elon Musk, stofnandi og eigandi SpaceX, hefur einnig sagt að um sé að ræða stórt skref í átt að geimferðum fyrir áhugasama viðskiptavini.