Auðveldar glímuna við sjúkdóma

Healie gæti nýst við ýmiss konar kvillum og mögulega aukið …
Healie gæti nýst við ýmiss konar kvillum og mögulega aukið lífsgæði margra milljóna sjúklinga. „Áætlað er að bara í vestrænum löndum glími um 5-7% íbúa við skjaldkirtilsvandamál, en um 150 milljón manns á heimsvísu,“ segir Anný. Myndin sýnir lækna að störfum á gjörgæsludeild í Brasilíu. AFP

Í námskeiðinu Nýsköpun og stofnun fyrirtækja fá nemendur við Háskólann í Reykjavík að sýna hvað í þeim býr. Þar fá þeir aðeins u.þ.b. þrjár vikur til að finna og þróa viðskiptahugmynd og gera viðskiptaáætlun. Í ár tóku um 560 nemendur þátt í áfanganum og mynduðu samtals 112 teymi sem skiluðu inn mjög fjölbreyttum tillögum. Af öllum verkefnum þótti hugbúnaðurinn Healie bera af, en um er að ræða forrit sem hjálpar við greiningu og meðferð langvinnra sjúkdóma með því að safna á einn stað upplýsingum um meðferð, einkenni og lífsstíl sjúklingsins.

Vaktar áhrifaþætti og líðan

„Healie er ætlað að hjálpa fólki með hvers kyns langvinna sjúkdóma en í verkefninu þurftum við að afmarka okkur við einn tiltekinn sjúkdóm og varð sjálfsofnæmissjúkdómurinn Hashimoto‘s fyrir valinu,“ útskýrir sálfræðineminn Anný Hermannsdóttir, en auk hennar var hópurinn skipaður Ragnheiði Lilju Guðmundsdóttur lögfræðinema, Ásgeiri Inga Valtýssyni viðskiptafræðinema, Andra Snæ Sævarssyni verkfræðinema og Arnari Ólafssyni, sem leggur stund á nám í tölvunarfræði.

Healie getur haldið utan umbæði andleg og líkamleg einkenni.
Healie getur haldið utan umbæði andleg og líkamleg einkenni.

Hashimoto‘s er erfiður sjúkdómur við að eiga og segir Anný að sjúkdómsgreiningin sé einstaklega flókin. „Þessi sjúkdómur ræðst á skjaldkirtilinn, raskar starfsemi hans og er ein algengasta ástæðan fyrir vanvirkum skjaldkirtli. Þá veldur hann einkennum víða um líkamann og hefur sjúkdómurinn verið tengdur við ótal mismunandi einkenni, s.s. óþol gegn vissum matartegundum, svefntruflanir og jafnvel örmögnun.“

Með Healie getur sjúklingur skráð inn alls kyns upplýsingar um þætti á borð við mataræði, svefn, hreyfingu og líðan frá degi til dags. Þá má tengja forritið við snjallúr sem vaktar lífsmörk á borð við líkamshita, hjartslátt og blóðþrýsting til að gera enn nákvæmari mynd af líkamlegu ástandi einstaklingsins.

Gæti hjálpað mörgum

Þessar upplýsingar nýtast sérfræðingi eða sjúklingi við að skilja sjúkdóminn betur, koma auga á hvað dregur úr eða magnar upp einkenni, og gera markvissari breytingar á lyfjameðferð. Segir Anný að í framtíðinni mætti jafnvel nýta gervigreind til að hjálpa til við greiningu upplýsinganna og koma auga á orsakasamhengi. „Þetta er erfiður sjúkdómur að halda utan um og margt sem sjúklingnum sjálfum gæti yfirsést. Einn meðlimur hópsins er með Hashimoto‘s og þarf í dag að nota fimm mismunandi snjallforrit til að hjálpa við að skrásetja og vakta margt af því sem hefur áhrif á heilsu hennar og líðan.“

Lyfjadagbók bætir yfirsýn.
Lyfjadagbók bætir yfirsýn.

Anný segir frumskoðun benda til að Healie geti gagnast fjölda fólks með langvinna sjúkdóma og sér hópurinn fyrir sér að tengja forritið við sjúkraskrár til að stuðla að enn betri upplýsingagjöf og læknismeðferð og greina fyrir heildrænni sýn á samspil lífstílsatriða og sjúkdóma. „Áætlað er að bara í vestrænum löndum glími um 5-7% íbúa við skjaldkirtilsvandamál, en um 150 milljón manns á heimsvísu.“

Vilja fara alla leið

Hópurinn á bak við Healie er að vonum brattur og ánægður með árangurinn. Viðskiptahugmyndin mun keppa fyrir hönd HR á alþjóðlegri nemendakeppni sem haldin verður í Kína en Anný segir að í ljósi aðstæðna sé alls óvíst hvort fulltrúar háskólans mæti á svæðið. „Við erum mjög áhugasöm um að þróa hugmyndina lengra og væri gaman að funda með áhugaverðum fjárfestum og mögulegum samstarfsaðilum um framhaldið,“ segir Anný. „Engin sambærileg lausn er til á markaðnum í dag, og við höfum komið auga á gott tækifæri sem gaman væri að nýta.“

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. maí. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert