Sögulegt geimskot gekk eins og í sögu

Crew Dragon-geimferjan var mjög tignarleg þegar hún tók á loft.
Crew Dragon-geimferjan var mjög tignarleg þegar hún tók á loft. AFP

Fyrsta mannaða geimskotið frá Bandaríkjunum í níu ár gekk fullkomlega upp núna um hálfáttaleytið í kvöld þegar Crew Dragon-geimferja SpaceX þaut af stað út í geim í átt að Alþjóðlegu geimstöðinni (ISS).

Geimskotið átti að fara fram á miðvikudaginn en því var frestað vegna veðurs. Um er að ræða samvinnuverkefni SpaceX, fyrirtækis í eigu Elon Musk, og NASA.

Um tímamótageimskot var að ræða bæði af því að þetta var í fyrsta sinn sem einkafyrirtæki sendir geimfara út í geim auk þess sem það er næstum því áratugur liðinn frá síðasta geimskoti Bandaríkjanna.

Um borð í Crew Dragon voru geim­far­arn­ir tveir, Bob Behnken og Doug Hurley, sem koma úr röðum banda­rísku geim­ferðastofn­un­ar­inn­ar NASA, en þeir eru báðir þrautreynd­ir geim­far­ar.

Einni mínútu og 49 sekúndum eftir flugtak var hraði Crew …
Einni mínútu og 49 sekúndum eftir flugtak var hraði Crew Dragon farinn að nálgast 3.000 km/klst. AFP

Enginn gerir þetta eins og við

Donald Trump Bandaríkjaforseti lét sig ekki líða hjá að vera viðstaddur þennan sögulega atburð og var mættur í Kennedy geimstöðina í Flórída. Forsetinn var hæstánægður með þetta mikla afrek.

„Alvöru hæfileikar, alvöru snilligáfa, enginn gerir þetta eins vel og við,“ sagði forsetinn og bætti við: „Þetta er bara byrjunin. Þetta er virkilega sérstakt.“

Donald Trump Bandaríkjaforseti horfir á eftir geimferjunni ásamt Mike Pence, …
Donald Trump Bandaríkjaforseti horfir á eftir geimferjunni ásamt Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, og Karen Pence eiginkonu varaforsetans. AFP

„Þetta er alltaf áhætta“

„Enn sem komið er hefur þetta gengið algjörlega eins og í sögu, ekki hnökra að finna ennþá — sem er dásamlegt,“ segir Ari Krist­inn Jóns­son, rektor Há­skól­ans í Reykja­vík, sem fylgdist grannt með geimskotinu þrátt fyrir að vera í miðju fjölskylduboði. Ari starfaði hjá NASA á tímabili.

Hann segir það ekki óvænt hversu vel geimskotið hafi gengið enda hafi SpaceX mikla reynslu af bæði eldflaugunum sem knýja geimfarið og Crew Dragon geimfarinu sjálfu. „Þannig þeir hafa reynsluna en þetta er í fyrsta skipti sem einkafyrirtæki sendir mannað geimfar alla leið út í alþjóðlegu geimstöðina. Þetta er alltaf áhætta,“ tekur hann fram.

Samkvæmt nýju fregnum er geimfarið á réttri leið (e. trajectory) og segir Ari það vera fyrsta skrefið af mörgum. 

„Þeir eru settir á byrjunarsporbaug sem er ákveðin leið til að fara í kringum jörðina og nálgast alþjóðlegu geimstöðina. Síðan er geimfarið tengt geimstöðinni og farið um borð. Markmiðið er að sýna að það sé hægt en einnig eftir einhverja daga að það sýna að það er hægt að aftengja geimfarið og koma geimförunum heilum og höldnum til jarðar.“

Ari og bætir við að mesta spennustigið verði næst þegar geimfarið kemur aftur inn í lofthjúp jarðar. Ekki er víst á þessari stundu hversu lengi geimfararnir munu dvelja um borð í alþjóðlegu geimstöðinni áður en þeir halda heim, sá gluggi er töluvert stærri en glugginn var fyrir geimskotið.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert