Geimhylkið sem bandarísku geimfararnir Doug Hurley og Bob Behnken dvelja í á leið sinni á braut um jörðu mun festa sig við alþjóðlegu geimstöðina, ISS, klukkan 14:30 í dag. Ferlið er alfarið sjálfsvirkt og þurfa geimfararnir ekki að grípa inn í nema eitthvað komi upp á.
Þegar hylkið hefur fest sig rækilega við geimstöðina og þrýstingsskoðun lokið geta þeir farið inn í geimstöðina en þar hitta þeir fyrir hóp rússneskra og bandarískra geimfara. Geimfararnir lögðu af stað frá Kennedy-skotstöðinni í Flórída klukkan 19:22 í gær og tekur ferðalagið upp í geim því um 19 klukkustundir. Þann tíma hafa þeir meðal annars nýtt í að sofa til að undirbúa sig undir átök dagsins.
Áður en að því kom fylgdu þeir þó hefð bandarískra geimfara að nefna hylkið. Tilkynntu þeir, þegar þeir voru komnir í loftið, að hylkið myndi fá nafnið Endeavour, sem þýða má Viðleitni eða Tilraun.
Mun það nafn vera valið bæði til heiðurs annarri skutlu með sama nafn, en hún var sú fyrsta sem báðir menn flugu með, en ekki síður vegna „þeirra mögnuðu tilrauna (e. endeavour) sem NASA, SpaceX og Bandaríkin hafa staðið í frá því geimflaugaáætluninni lauk 2011“.