Hópur mannréttindafrömuða varar við því að Mark Zuckerberg, stofnandi og framkvæmdastjóri tæknirisans Facebook, setji „hættulegt fordæmi“ með því að fjarlægja ekki færslu Donalds Trump Bandaríkjaforseta.
Hópurinn gaf út yfirlýsingu eftir fjarfund með Zuckerberg, að því er fram kemur á vef BBC.
Færsla Trump, sem sneri að mótmælaöldunni sem gengur nú yfir Bandaríkin í kjölfar dauða George Floyd, var falin af Twitter í síðustu viku þar sem hún var talin brjóta gegn reglum sem banna að ofbeldi sé lofsungið.
„Þegar gripdeildir hefjast, hefst skothríðin,“ skrifaði forsetinn í færslunni sem var falin af Twitter, en hefur áfram fengið að vera ófalin á Facebook.
Zuckerberg hefur varið ákvörðun sína um að leyfa færsluna með því að segjast vera ósammála Trump, en að fólk eigi að geta myndað sínar eigin skoðanir.
„Við erum vonsvikin og orðlaus yfir óskiljanlegum útskýringum Mark á því að færsla Trump fái áfram að vera sýnileg. Hann sýndi ekki nokkurn skilning á sögulegri eða nútímalegri kúgun kjósenda og hann neitar að viðurkenna að Facebook auðveldar ákall Trump á ofbeldi gegn mótmælendum,“ segir í yfirlýsingu hópsins.
„Mark setur með þessu hættulegt fordæmi fyrir aðrar raddir sem myndu segja álíka skaðlega hluti á Facebook.“
Starfsmenn Facebook hafa margir sagst vera ósáttir með yfirmann sinn og einhverjir hafa sagt starfi sínu lausu. Samkvæmt New York Times telja sumir starfsmenn fyrirtækisins ákvörðunina ekki vera til þess að verja tjáningafrelsið, heldur fremur vegna ótta Zuckerberg við viðbrögð Repúblíkanaflokksins ef Facebook felur færsluna.
Þá hefur rafræna geðheilbrigðisþjónustan Talkspace slitið viðræðum við Facebook vegna ákvörðunar Zuckerberg um að leyfa færsluna.
„Við hjá Talkspace slitum samstarfsviðræðum okkar við Facebook í dag. Við munum ekki styðja vettvang sem hvetur til ofbeldis, kynþáttahaturs og lyga,“ sagði framkvæmdastjóri Talkspace, Oren Frank, á Twitter.