Breska lyfjafyrirtækið AstraZeneca á von á því að geta sett á markað tvo milljarða skammta af bóluefni við kórónuveirunni í september ef yfirstandandi rannsóknir skila jákvæðum árangri að sögn forstjóra fyrirtækisins.
Fyrirtækið er í samstarfi við háskólann í Oxford sem hefur stýrt klínískum rannsóknum á lyfinu. Það er þegar komið í framleiðslu en beðið er samþykkis lyfjaeftirlitsins áður en lyfið fer á markað. Gert er ráð fyrir að rannsóknum ljúki á næstu mánuðum.
Enn sem komið er erum við á réttri braut og framleiðsla er að hefjast en við verðum að vera tilbúin með lyfið um leið og niðurstöður liggja fyrir segir forstjóri AstraZeneca, Pascal Soriot, í viðtali við BBC.
Hann segist telja að í ágúst eða september muni liggja fyrir hvort um virkt bóluefni er að ræða eður ei.
Fyrirtækið greindi frá því fyrr í vikunni að það hefði náð samkomulagi við bólusetningarbandalagsið Gavi, CEPI (e. Coalition for Epidemic Preparedness Innovation) sem er samstarfsvettvangur fyrirtækja og opinberra aðila um viðbúnað gegn farsóttum og Serum Institute of India um að tvöfalda framleiðslugetuna af COVID-19-bóluefninu — í tvo milljarða skammta.
Samkomulagið við Serum sem er einn stærsti framleiðandi bóluefnis í heiminum mun tryggja að nægar birgðir verða fyrir hendi fyrir fátækari ríki heims.
AstraZeneca er þegar í samstarfi um framleiðslu bóluefnisins fyrir Evrópu og Bandaríkin og er nú að undirbúa slíka framleiðslu í Kína auk Indlands.
Pascal Soriot segir að AstraZeneca, sem sinnir þessu starfi án ágóða í huga, geti tapað háum fjárhæðum á tilrauninni ef klínískar rannsóknir bendi til þess að lyfið skili ekki árangri í baráttunni við COVID-19. Fjárhagslegri áhættu er dreift með stofnunum eins og CEPI.
Háskólinn í Oxford hóf rannsóknir á bóluefninu með aðstoð hundraða sjálfboðaliða í apríl og verða þær nú útvíkkaðar í 10 þúsund þátttakendur.