Bóluefni á markað í september?

Úti um allan heim er unnið að rannsóknum á bóluefnum …
Úti um allan heim er unnið að rannsóknum á bóluefnum við COVID-19. AFP

Breska lyfjafyrirtækið AstraZeneca á von á því að geta sett á markað tvo milljarða skammta af bóluefni við kórónuveirunni í september ef yfirstandandi rannsóknir skila jákvæðum árangri að sögn forstjóra fyrirtækisins.

Fyrirtækið er í samstarfi við háskólann í Oxford sem hefur stýrt klínískum rannsóknum á lyfinu. Það er þegar komið í framleiðslu en beðið er samþykkis lyfjaeftirlitsins áður en lyfið fer á markað. Gert er ráð fyrir að rannsóknum ljúki á næstu mánuðum.

Enn sem komið er erum við á réttri braut og framleiðsla er að hefjast en við verðum að vera tilbúin með lyfið um leið og niðurstöður liggja fyrir segir forstjóri AstraZeneca, Pascal Soriot, í viðtali við BBC.

Hann segist telja að í ágúst eða september muni liggja fyrir hvort um virkt bóluefni er að ræða eður ei.

Fyrirtækið greindi frá því fyrr í vikunni að það hefði náð samkomulagi við bólu­setn­ing­ar­banda­lagsið Gavi, CEPI (e. Coaliti­on for Ep­i­demic Prepared­ness Innovati­on) sem er sam­starfs­vett­vang­ur fyr­ir­tækja og op­in­berra aðila um viðbúnað gegn far­sótt­um og Serum Institute of India um að tvöfalda framleiðslugetuna af COVID-19-bóluefninu — í tvo milljarða skammta. 

Samkomulagið við Serum sem er einn stærsti framleiðandi bóluefnis í heiminum mun tryggja að nægar birgðir verða fyrir hendi fyrir fátækari ríki heims. 

AstraZeneca er þegar í samstarfi um framleiðslu bóluefnisins fyrir Evrópu og Bandaríkin og er nú að undirbúa slíka framleiðslu í Kína auk Indlands. 

Pascal Soriot segir að AstraZeneca, sem sinnir þessu starfi án ágóða í huga, geti tapað háum fjárhæðum á tilrauninni ef klínískar rannsóknir bendi til þess að lyfið skili ekki árangri í baráttunni við COVID-19. Fjárhagslegri áhættu er dreift með stofnunum eins og CEPI.

Háskólinn í Oxford hóf rannsóknir á bóluefninu með aðstoð hundraða sjálfboðaliða í apríl og verða þær nú útvíkkaðar í 10 þúsund þátttakendur.

AstraZeneca.
AstraZeneca. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert