Bendir til þess að malaríulyfið auki lífslíkur

AFP

Bandarískir rannsakendur segja að rannsókn þeirra á rúmlega 2.500 sjúklingum, inniliggjandi vegna kórónuveirunnar, bendi til þess að þeir sem fengu malaríulyfið hydroxychloroquine væru líklegri til að lifa veiruna af.

Niðurstöður rannsóknarinnar eru á skjön við flestar aðrar sem gerðar hafa verið á lyfinu, en prófunum á því var aflýst í lok maí vegna annarrar rannsóknar, hverrar niðurstöður voru að meðferð sjúklinga með kórónuveiruna með lyfinu gæti jafnvel aukið líkur á dauðsfalli af völdum COVID-19 sjúkdómsins. 

Dr. Marcus Zervos, sem leiddi rannsóknina, segir að 26% þeirra sjúklinga sem var ekki gefið lyfið létust, samanborið við 13% dánartíðni á meðal þeirra sjúklinga sem fengu lyfið. 

„Niðurstöður okkar eru frábrugðnar annarra rannsókna. Það sem við teljum að skipti miklu máli er að sjúklingarnir fengu meðferð snemma. Til þess að hydroxychloroquine hafi eitthvert gagn þarf að gefa það áður en sjúklingarnir verða fyrir þeim miklu ónæmisviðbrögðum sem covid getur valdið,“ segir Zervos. Þá segir Zervos að vel var fylgst með mögulegum hjartavandamálum sjúklinga. 

Rannsakendur sem ekki tóku þátt í umræddri rannsókn hafa verið gagnrýnir á niðurstöðurnar og meðal annars bent á það að sjúklingar voru ekki valdir af handahófi í rannsóknina. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert