Einmanaleiki helsti ókostur fjarvinnu

Kona bíður eftir strætó í Stokkhólmi.
Kona bíður eftir strætó í Stokkhólmi. AFP

Kórónuveiran hefur sýnt fram á mikilvægi samvinnu og vinnustaðaanda. Þessa ályktun dregur sænska dagblaðið Dagens nyheter af rannsókn sem könnunarfyrirtækið Ipsos vann fyrir blaðið og sneri að vinnu að heiman á tímum kórónuveirufaraldursins.

51 prósent þátttakenda í könnuninni segja að helsti ókostur þess að vinna að heiman sé einmanaleiki og það að vera án vinnufélaga. Aðeins fimm prósent nefna verri vinnuaðstöðu, fimm prósent minni aðgang að tækjum og önnur fimm prósent verri samskipti við vinnufélaga sem geri það erfiðara að vinna saman. Þá nefna 30 prósent aðra þætti.

Hlutfall þeirra sem nefna einmanaleikann og skort á samskiptum við vinnufélaga er ólíkt milli aldurshópa, stærst í hópi fólks á aldrinum 30-59 eða 55-56% en 37% hjá fólki á aldrinum 18-29 ára og 30% hjá fólki yfir sextugu. Þá er hlutfallið áberandi hærra hjá einstæðum foreldrum en öðrum, eða 65%.

Karin Brocki er prófessor í sálfræði við Háskólann í Uppsölum en hún vinnur um þessar mundir rannsóknir á andlegri líðan á tímum faraldursins. Hún segir að kórónuveiran og einmanaleiki geti verið kveikjan að andlegri vanlíðan, sérstaklega fyrir þau sem glíma við vandamál fyrir.

„Þau sem upplifa einmanaleika og einangrun og að tilheyra ekki samfélagi eiga í mikilli hættu á að þróa með sér andleg veikindi,“ segir hún. „Sérhver manneskja verður að finna að hún sé viðurkennd.“

Þótt dregið hafi úr fjarvinnu frá því faraldurinn stóð sem hæst eru líkur á því að faraldurinn verði mörgum fyrirtækjum spark í rassinn þegar kemur að aukinni fjarvinnu, og velta þau mörg hver fyrir sér hvort þau eigi að halda sig við útfærsluna í einhverri mynd, segir Anneli Hytter hjá Vinnumálastofnun Svíþjóðar. Fyrirtæki sjái hag sinn í að minnka við sig í húsnæði enda fermetraverð í vel staðsettu skrifstofuhúsnæði oft æði hátt. „Þá verða að nást samningar þar sem útgjöld vegna fjarvinnu eru tekin með,“ segir Hytter.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert