Netþjónusta Garmin, eins stærsta íþróttatæknivöruframleiðanda heims, hefur legið niðri síðan eldsnemma í morgun, eða í um hálfan sólarhring.
Þetta þýðir að notendur búnaðar frá Garmin geta ekki deilt afrekum sínum með öðrum eða hlaðið gögnum sínum inn á smáforrit Garmin, né inn á önnur smáforrit á borð við hið vinsæla Strava.
Vegna bilunar netþjónustunnar geta notendur heldur ekki búið til nýjar hlaupa- eða hjólaleiðir í búnaði sínum. Hins vegar geymir búnaðurinn áfram allar athafnir eigenda sinna, svo að gögn sem safnað er á meðan netþjónustan liggur niðri ættu ekki að glatast.
Samkvæmt umfjöllun Independent er óljóst hvað veldur því að netþjónusta Garmin liggur niðri, og hefur Garmin litlar upplýsingar gefið um ástæður þess að þjónusta þeirra er óvirk.
We are currently experiencing an outage that affects Garmin Connect, and as a result, the Garmin Connect website and mobile app are down at this time.
— Garmin Fitness (@GarminFitness) July 23, 2020