Huawei tekur fram úr Samsung

Huawei er mjög vinsæll framleiðandi í Kína en staða fyrirtækisins …
Huawei er mjög vinsæll framleiðandi í Kína en staða fyrirtækisins á vestrænum mörkuðum fer versnandi. AFP

Kínverska fjarskipta- og tæknifyrirtækið Huawei hefur tekið fram úr Samsung og er orðið það fyrirtæki sem seldi flesta snjallsíma í heiminum á öðrum ársfjórðungi í kjölfar aukinnar eftirspurnar í Kína.

Huawei seldi 55,8 milljónir símtækja á meðan Samsung seldi 53,7 milljónir og er Huawei því komið fram úr Samsung í fyrsta skipti. Annar ársfjórðungur á þessu ári er sá fyrsti í níu ár þar sem eitthvert annað fyrirtæki en Samsung eða Apple er leiðandi í þessum flokki.

Staða Huawei á vestrænum mörkuðum hefur þó versnað undanfarið þar sem nokkur lönd, þ.á m. Bretland og Bandaríkin hafa bannað 5G-búnað frá fyrirtækinu við uppbyggingu næstu kynslóðar netkerfis.

Meira en 70% símtækja voru keypt í Kína en þar hefur Samsung litla markaðshlutdeild. Í tilkynningu frá Huawei sagði að árangurinn væri merki um „framúrskarandi þrautseigju“ fyrirtækisins.

Kaup á vörum Huawei frá löndum utan Kína minnkuðu um nærri þriðjung á öðrum ársfjórðungi. Samkvæmt sérfræðingnum Mo Jia hjá fyrirtækinu Canalyst, sem er greiningaraðili fyrir tæknimarkaðinn, verður Kínamarkaður einn og sér þó ekki nóg til að halda Huawei á toppnum yfir flest seld símtæki þegar efnahagskerfi heimsins fara að taka við sér á nýjan leik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka