Magn kólesteróls í fæðu auki líkur á hjartaáföllum

Vísindamenn Íslenskrar erfðagreiningar framkvæmdu rannsóknina með samstarfsfólki.
Vísindamenn Íslenskrar erfðagreiningar framkvæmdu rannsóknina með samstarfsfólki. Ljósmynd/Aðsend

Niðurstöður rannsóknar Íslenskrar erfðagreiningar staðfesta að magn kólesteróls í fæðu hefur áhrif á kólesteról í blóði og eykur líkur á kransæðasjúkdómum, meðal annars hjartaáföllum. Rannsóknin leiddi einnig í ljós að viðbættir plöntusterólar geti stuðlað beint að æðakölkun.

Rannsóknin var gerð af vísindamönnum Íslenskrar erfðagreiningar og samstarfsfólks þeirra innan íslenska heilbrigðiskerfisins, Háskóla Íslands, Copenhagen Hospital biobank og danska blóðbankans. Grein um rannsóknina var birt í vísindaritinu European Heart Journal.

Plöntusterólar finnast í jurtaafurðum

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslenskri erfðagreiningu og þar segir að plöntusterólar séu efni sem líkjast kólesteróli og finnast í jurtaafurðum eins og ávöxtum, grænmeti, baunum og hnetum.

Plöntusterólar dragi úr upptöku kólesteróls úr fæðu og séu því gjarnan notaðir í „stórum skömmtum í heilsuvörum og fæðubótarefni sem eiga að stuðla að hjartaheilsu.“ Niðurstöður rannsóknarinnar benda á að þeir geti haft þveröfug áhrif.

Magn í fæðu hefur áhrif á magn í blóði

„Kólesteról finnst í nánast öllum dýraafurðum og flest fæða sem inniheldur mikið af kólesteróli inniheldur einnig mikið af mettaðri fitu en undantekningar á því eru meðal annars egg og skelfiskur. Það er vel þekkt að hið svokallaða vonda kólesteról hefur bein áhrif á myndun hjarta- og æðasjúkdóma.

Það er hinsvegar umdeilt hvort kólesteról í fæðu hafi áhrif á magn kólesteróls í blóði og þar af leiðandi á hættu á myndun hjarta- og æðasjúkdóma. Heilbrigðisyfirvöld víða um heim eru til að mynda hætt að ráðleggja fólki að draga úr neyslu á kólesterólríkri fæðu til að vernda hjartað.

Niðurstöður rannsóknarinnar staðfesta hinsvegar að kólesteról í fæðu hefur áhrif á magn kólesteróls í blóði og líkur á kransæðasjúkdómi, meðal annars hjartaáföllum,“ segir í umfjöllun Íslenskrar erfðagreiningar um rannsóknina.

Áhrifin mæld í 147 þúsund sjúklingum

Ferjupróteinin NPC1L1 og ABCG5/8 stýra ferðalagi kólesteróls og plöntusteróla úr meltingarveginum inn í blóðið. NPC1L1 flytur sterólana úr meltingarveginum inn í þarmafrumurnar þaðan sem ABCG5/8 dælir að jafnaði tæplega helmingnum af kólesterólinu og megninu af plöntusterólunum aftur út í meltingarveginn. Þetta gerir það að verkum að venjulega frásogast um 50 til 60% af því kólesteróli en einungis um 5% af þeim plöntusterólum sem við borðum.

Í rannsókninni voru metin áhrif erfðabreytileika sem breyta virkni ABCG5/8 ferjupróteinanna á magn kólesteróls og plöntusteróla í blóði og líkur á kransæðasjúkdómi í þátttakendum frá Íslandi, Bretlandi og Danmörku. Áhrif erfðabreytileikanna voru mæld í allt að 147 þúsund sjúklingum með kransæðasjúkdóm og 922 þúsund í viðmiðunarhópi.

Vekur upp spurningar um skaðsemi viðbættra plöntusteróla

Rannsóknin sýndi að einstaklingar með erfðabreytileika sem minnka virkni ABCG5/8 eru með meira kólesteról og plöntusteról í blóði, og líklegri til að fá kransæðasjúkdóm. Þessar niðurstöður staðfesta að kólesteról í fæðu hefur áhrif á magn kólesteróls í blóði og líkur á kransæðasjúkdómi, meðal annars hjartaáföllum. Þessar niðurstöður þýða einnig að það er breytilegt meðal fólks hversu mikið það frásogar af kólesterólinu sem það borðar.

Þá sýndi rannsóknin að áhrif ABCG5/8 erfðabreytileika, sem hafa bæði áhrif á magn kólesteróls og plöntusteróla í blóði, á áhættu á kransæðasjúkdómi, var mun meiri en annarra erfðabreytileika sem eingöngu hafa áhrif á magn kólesteróls í blóði.

„Þessar niðurstöður benda því til þess, sem aðrar rannsóknir hafa vakið grunsemdir um, að plöntusterólar hafi bein áhrif á myndun kransæðasjúkdóms. Rannsóknin vekur því upp spurningar um gagnsemi og mögulega skaðsemi þess að neyta fæðu með viðbættum plöntusterólum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert