Fyrsta bóluefnið tilbúið í Rússlandi

Rússar hafa þróað fyrsta bóluefnið sem veitir varanlegt ónæmi gegn kórónuveirunni segir forseti Rússlands, Vladimír Pútín. 

„Í fyrsta skipti í heiminum þá var bóluefni gegn nýju kórónuveirunni skráð í Rússlandi í morgun,“ segir Pútín í útsendingu í sjónvarpi frá ríkisstjórnarfundi sem fór fram rafrænt í dag.

Í frétt Washington Post kemur fram að bóluefnið sé þróað við Gamaleja-stofnunina í Moskvu. Nú taki við framleiðsla á tugþúsundum bólusetningareininga. Yfirvöld í Rússlandi hafa heitið því að bólusetja milljónir Rússa, þar á meðal kennara og heilbrigðisstarfsmenn sem starfa í framlínunni. Tilkynnt var um bólusetningar fyrr í mánuðinum með tilraunaútgáfu bóluefnisins. Þegar þau áform voru tilkynnt voru ekki allir sáttir við að slík tilraunastarfsemi á fólki færi fram með bóluefni sem ekki væri búið að rannsaka nægjanlega. Ekki lægi fyrir hvort það væri öruggt og áhrifaríkt. 

Rússnesk yfirvöld hafa greint frá því að ekki sé langt í að önnur tegund bóluefnis verði tilbúin í annarri rannsóknarstöð, Vector, sem er í Síberíu. Vísindamenn í öðrum ríkjum hafa gagnrýnt flýtinn hjá Rússum og hversu mikla áherslu þeir hafa lagt á að setja fyrstir á markað bóluefni við COVID-19, farsótt sem heimurinn allur glímir við. Vísindamenn óttast að þetta geti haft skaðleg áhrif og bóluefnið geti jafnvel skaðað þá sem fá það. 

Pútín segir dóttur sína hafa fengið bóluefnið og hann líti svo á að hún hafi tekið þátt í tilrauninni. 

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) óskaði eftir því við Rússa að fylgja formlegum viðmiðunarreglum og fara í gegnum öll möguleg stig hvað varðar lyfjaþróun svo tryggt sé að um öruggt bóluefni sé að ræða.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert