Hér á landi eru notaðar tvær aðferðir við að prófa fyrir SARS-CoV-2-smiti. Bæði prófin eru mjög næm, en þó er ekki unnt að segja með neinni vissu hversu mörg prósent sýktra einstaklinga mælast neikvæð þrátt fyrir að vera sýkt af veirunni segir í svari Ernu Magnúsdóttur, dósents í lífeinda- og líffærafræði við læknadeild HÍ, á Vísindavef Háskóla Íslands í dag.
Er hún þar að svara tveimur spurningum frá áhugasömum lesendum varðandi smitprófanir hér á landi.
Er möguleiki á að fólk greinist með falskt jákvætt próf og ef svo hversu miklar líkur eru á fölskum jákvæðum prófum? (Arnbjörg). Hversu áreiðanlegar eru niðurstöðurnar úr COVID-19-skimun/prófi hér á landi? Það er hversu mörg prósent af sýktum gefa fram jákvæða niðurstöðu? (Ottó). Hversu nákvæmt er COVID-19-próf og hvað má búast við mörgum fölskum jákvæðum niðurstöðum úr því? (Kári Þór)
„Hér á landi eru notaðar tvær aðferðir við að prófa fyrir SARS-CoV-2-smiti. Annars vegar er notað kjarnsýrupróf, sem mælir hvort erfðaefni veirunnar sé til staðar í öndunarvegi fólks, en hins vegar er notað mótefnapróf til þess að mæla hvort fólk hafi myndað mótefni gegn veirunni. Við landamæraskimun hér á landi er fyrst notað kjarnsýrupróf og reynist það jákvætt er síðan athugað hvort viðkomandi hafi myndað sértæk mótefni við veirunni. Sé einkennalaus einstaklingur jákvæður á báðum prófunum telst hann með óvirkt smit. Sé viðkomandi hins vegar ekki með mótefni eru töluverðar líkur á að hann sé smitandi og telst vera með virkt smit.
Bæði prófin eru mjög næm, en þó er ekki unnt að segja með nokkurri vissu hversu mörg prósent sýktra einstaklinga mælast neikvæð, þrátt fyrir að vera sýkt af veirunni. Það er vegna þess að ástæða neikvæðra prófa hjá sýktum einstaklingum er í langfæstum tilvikum tæknilegs eðlis, heldur fer hún eftir því hversu langt er síðan viðkomandi sýktist. Veiran þarf að fjölga sér í öndunarvegi fólks áður en hún verður mælanleg og það er talið taka nokkra daga frá því að fólk sýkist þar til nægt magn er af veirunni til að prófið verði jákvætt,“ segir Erna.
Kjarnsýruprófin sem notuð eru til að greina veirusmit eru fremur áreiðanleg og gífurlega næm.
Mjög sjaldgæft er til dæmis að fólk smitað af SARS-CoV-2, sem líka hefur einkenni sjúkdómsins COVID-19, mælist neikvætt á kjarnsýruprófi. Einstaka tilvik hafa þó komið upp en ekki er vitað nákvæmlega hvað veldur því. Ein ástæða gæti mögulega verið að í slímhúð viðkomandi einstaklings séu efni sem hindra ensímin sem notuð eru í prófinu, eða að veiran hafi fjölgað sér meira í neðri hluta öndunarvegar en efri. Þetta eru þó einungis getgátur.
Þegar faraldurinn reið yfir Kína í upphafi árs 2020 voru notuð próf byggð á sömu aðferð og hér á landi, en þó með annarri útfærslu.
„Bent hefur verið á að tíðni falskra-neikvæðra prófa á nefholssýnum hafi verið allt að 27% í Kína þegar um var að ræða sjúklinga sem höfðu öll einkenni COVID-19 og mældust síðar jákvæðir á mótefnaprófi en að aðrar rannsóknir hafi sýnt 2-29% tíðni falskra-neikvæðra prófa.
Þessar niðurstöður eru þó umdeildar því aðferðafræðin við áreiðanleikamatið var ekki nógu stöðluð, sérstaklega ekki hvað varðar sýnatöku. Það þarf því að vanda vel til verka við hönnun á veiruprófum sem og þeim rannsóknum sem meta eiga áreiðanleika prófanna,“ segir í svari Ernu en sambærilegar tölur yfir prófin sem notuð eru á Íslandi liggja ekki fyrir. Ætla má að þau séu áreiðanlegri en ofangreindar tölur gefa til kynna, sérstaklega ef tekið er mið af því hversu vel tókst að ráða niðurlögum fyrstu bylgju faraldursins.
Tíðni falskra-jákvæðra niðurstaðna er jafnframt mjög lág, það er að einstaklingur sem ekki er smitaður greinist jákvæður fyrir SARS-CoV-2 með kjarnsýruprófi. Hún hefur ekki verið metin beint en fjöldi prófa sem gerð hafa verið á svæðum eins og á Íslandi á tímum þar sem tíðni smita er lág gefur einhverja hugmynd, til dæmis má áætla um það út frá gögnum Íslenskrar erfðagreiningar og veirufræðideildar Landspítalans sem birtast á covid.is.