Íshellan á Grænlandi bráðnar sífellt hraðar

Ís brotnar úr jöklinum Apusiajik skammt frá Kulusuk.
Ís brotnar úr jöklinum Apusiajik skammt frá Kulusuk. AFP

Íshellan á Grænlandi hefur bráðnað svo mikið að ekki er hægt að snúa þróuninni við. Snjókoma getur ekki lengur bætt upp fyrir bráðnunina, jafnvel þótt hlýnun jarðar hætti í dag.

Þetta kemur fram í rannsókn vísindamanna við Ohio State-háskólann sem var birt 13. ágúst. Íshellan minnkaði um 532 milljarða tonna á síðasta ári, sem er meira en nokkru sinni fyrr. 

Hlýnun jarðar hefur afar skaðleg áhrif á jökla heimsins og stafar milljónum manna um allan heim hætta af bráðnun jökla. Íshellan á Grænlandi bráðnar tvisvar sinnum hraðar en jöklar annars staðar í heiminum.

Áttatíu og fimm prósent yfirborðsins á Grænlandi, sem er tvær milljónir ferkílómetra að stærð, er þakið ís.

„Íshellan á Grænland er að tapa massa með auknum hraða á 21. öldinni og er þetta stærsti einstaki  þátturinn sem veldur hækkun yfirborðs sjávar,“ segir í rannsókninni.

Ís á floti skammt frá Kulusuk.
Ís á floti skammt frá Kulusuk. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert