Yfirvöld í Flórídaríki í Bandaríkjunum hafa veitt fyrirtækinu Oxitec leyfi til þess að sleppa 750 milljónum erfðabreyttra moskítóflugna lausum í ríkinu. Þetta verður gert til þess að reyna að stemma stigu við fjölgun moskítóflugna sem bera pestir á borð við beinbrunasótt og zika-veiruna. Umhverfissinnar segja ráðstöfunina hættulegt inngrip í lífríkið á svæðinu. BBC greinir frá.
Aðeins kvenkyns moskítóflugur geta bitið menn og valdið sjúkdómum vegna þess að þær þurfa blóð manna til þess að framleiða egg sín. Tilraun Oxitec felur í sér að sleppa erfðabreyttum karlkyns moskítóflugum sem geta þá æxlast við kvenflugurnar. Karlflugurnar búa yfir prótíni sem drepur öll kvenkyns afkvæmi áður en þau ná tilskildum aldri til þess að verða bithæf. Þannig mun bithæfum flugum smám saman fækka en meinlausu karldýrin standa eftir.
Ekki eru allir á eitt sáttir við þessa ráðstöfun Oxitec. Ríflega 240 þúsund manns hafa skrifað undir undirskriftalista þar sem hörðum orðum er farið um þær fyrirætlanir fyrirtækisins að nota ríki Bandaríkjanna sem tilraunastofu fyrir þessi erfðabreyttu skordýr.
Þá segja umhverfisverndarsamtökin Friends of the Earth í yfirlýsingu að „losun þessara erfðabreyttu dýra mun stofna Flórídabúum, umhverfinu og skepnum í útrýmingarhættu í gríðarlega hættu í miðjum heimsfaraldri“.
Sérfræðingur Oxitec segir við AP-fréttastöðina að fyrirtækið hafi á síðustu árum losað milljarða áþekkra skordýra algjörlega sársaukalaust fyrir umhverfið.
Fyrirhugað er að flugunum verði sleppt út í umhverfið yfir tveggja ára tímabil og hefst framkvæmdin á næsta ári.