Svissneska nýsköpunarfyrirtækið Climeworks, sem sérhæfir sig í að fanga koldíoxíð úr andrúmslofti, hefur skrifað undir samninga við Carbfix og Orku náttúrunnar sem leggja grunn að nýrri verksmiðju við Jarðhitagarð ON sem mun fanga 4.000 tonn af koldíoxíði úr lofti árlega og farga með því að breyta því í stein.
Fram kemur í tilkynningu að um sé að ræða mikilvægt skref í baráttunni gegn hlýnun jarðar, en í fyrsta sinn verða þessar brautryðjandi tækninýjungar sameinaðar í verkefni af þessari stærðargráðu.
Verkefnið gæti haft úrslitaáhrif við að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins, en áframhaldandi þróun á þessum tæknilausnum gæti haft veruleg áhrif í baráttunni gegn hlýnun jarðar.
Samningurinn við ON felur í sér að Climeworks muni byggja aðstöðu innan Jarðhitagarðs Orku náttúrunnar til að fanga koldíoxíð úr andrúmslofti. Þetta verður gert með sérþróaðri tækni Climeworks, en ON mun tryggja stöðugt framboð af hita og endurnýjanlegri orku til að knýja tæknibúnaðinn áfram.
Samningurinn við Carbfix tryggir örugga förgun á koldíoxíði með því að binda hann varanlega í stein í iðrum jarðar. Basalthraunið á Íslandi hentar sérlega vel í slíku ferli og veitir varanlega og náttúrulega lausn við geymslu koltvísýrings.